Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 16:43:30 (3444)

2002-01-22 16:43:30# 127. lþ. 57.2 fundur 378. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform og arðgreiðslur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Málið sem við ræðum hér gengur út á að hugsanlega sé hægt að færa vatnsveitur í sérstakt rekstrarform einkareksturs og að vatnsveitur sveitarfélaga sem ekki eru sjálfstæðir skattaðilar skuli reikna sér sérstakan arð. Ég verð að segja eins og er, að ég er andvígur þeirri hugsun sem birtist í þessu frv. Ég get ekki sett samasemmerki á milli þess að hafa aðgang að fersku, köldu vatni og þess að hafa hita í húsi t.d. Ég set ekki samasemmerki þarna á milli. Hvers vegna geri ég það ekki? Það er nú þannig að menn hafa fleiri ráð til að hita hús sín en bara heitt vatn. Jafnvel þó að heitt vatn fari af um stund eða bregðist þá er yfirleitt rafmagn í öllum húsum og má nú kannski viðhalda hita í húsum um einhvern tíma.

Þegar kemur hins vegar að vatninu þá lít ég svo á að þar sé um frumþörf að ræða sem eigi að vera leyst af hendi sem þjónusta sveitarfélaganna við hvert það hús sem byggt er innan marka þeirra. Þess vegna vil ég lýsa þeirri skoðun minni í stuttu máli að ég er andvígur því að opnað verði fyrir sérstök fyrirtæki um vatnsveitur, að sú hugsun verði viðtekin að hægt verði að fara að selja vatnið sérstaklega. Eða er það kannski hugsunin í þessu frv., að menn séu með því að búa til fyrirtæki sem sveitarfélögin geti selt ef þau þurfa t.d. að laga hjá sér skuldastöðuna? Er þetta svipað og þegar sveitarfélögin á Vestfjörðum þurftu að selja Orkubúið til að laga hjá sér skuldastöðuna?

Ég er bara einfaldlega andvígur því að svona sé gert. Ég tel að það sem hér er lagt upp með sé óþarft og okkur ekki til framdráttar að opna á einkarekstur um vatnsveitur. Ég álít að það eigi að vera þjónusta sem öllum íbúum sveitarfélaga sé veitt og sveitarfélögin eigi að sjá um þau mál.