Flokkun og mat á gærum og ull

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 17:02:36 (3448)

2002-01-22 17:02:36# 127. lþ. 57.3 fundur 293. mál: #A flokkun og mat á gærum og ull# (ullarmat) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræðu hans. Það er vissulega rétt að margt hefur breyst í kringum ullariðnaðinn á síðustu árum en þó er það kannski svo að sumt hefur verið að þróast núna á betri veg. Við sjáum að bændur rýja yfir veturinn og hirða um ullina. Í búfjársamningum er lögð mikil áhersla á að hirða þessa afurð, enda er hún okkur dýrmæt og kannski sú eina af þeim mörgu afurðum sem við eigum sem á mikla möguleika á heimsmarkaði. Ég tek því undir með hv. þm. hvað þetta varðar að menn þurfa auðvitað að hugsa þetta upp á nýtt og gera það kannski á annan hátt. Fyrirtæki á landsbyggðinni eru að gera mjög góða hluti úr ullinni, dýrmætan fatnað og geta selt hann dýrt. Ullin fylgir á margan hátt sérstöðu okkar, hvort sem það er útlendingurinn sem á hestinn og klæðist lopapeysu eða ýmsir aðrir litlir möguleikar sem fyrir eru.

Ég gat þess hér af því hv. þm. taldi að bændur þyrftu að koma að málinu að þegar samið er um verð á ull og gærum eru það auðvitað Bændasamtökin sem fara með það mál fyrir hönd stéttarinnar þannig að þeir koma þar að þeim samningum. Ég hef ekki upplýsingar um hve miklu er hent, en ég hygg að í þessu eins og öðru sé töluvert af ull hent. Það er þá ull sem kannski er hirt um allt of seint og þykir ekki markaðsvara í dag. Menn sem rýja ekki eða rýja of seint gera ekki þá vöru að markaðsvöru og taka ekki þátt í því, þannig að þar þarf að gera mikið átak. Við sjáum það þegar við keyrum um þjóðvegi landsins að mjög margir taka þátt í því að hirða ull sína og gera hana að afurð og fá vissulega fyrir það töluverða peninga.

En ég tek undir með hv. þm. að auðvitað er mikilvægt að atvinnugreinin sjálf, bændurnir, stýri þessum málum til sóknar og við sem hér erum reynum að koma til hjálpar þar sem það er hægt. Ég sé víða að menn eru vissulega að gera ágæta hluti og því þarf að fylgja eftir.