Búfjárhald o.fl.

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 17:14:32 (3450)

2002-01-22 17:14:32# 127. lþ. 57.4 fundur 338. mál: #A búfjárhald o.fl.# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætlaði fyrst og fremst að gera eitt atriði sem tengist frv. að umræðuefni en það er spurningin um hvaða ákvæði gildi í lögum um búfjárhald um vörslu búfjár og þá einkum og sér í lagi hef ég í hyggju að ræða um vörslu eða vörsluskyldu stórgripa. Það er sökum þess að því miður er enn það ástand uppi í landinu að á allmörgum svæðum og þar á meðal meðfram meginþjóðvegum landsins í nokkrum sveitarfélögum eða héruðum eru ekki í gildi samþykktir sveitarfélaga um vörsluskyldu stórgripa sem aftur leiðir til þess að árekstrar verða milli umferðar og viðkomandi búpenings og í sumum tilvikum með alvarlegum slysum.

[17:15]

Ég hef verið talsmaður þess um langt árabil að tekið yrði á þessu máli og ég sé ekki aðra lausn, aðra endanlega eða varanlega aðgerð í þeim efnum sem kemur á og tryggir viðunandi ástand, en að innleidd verði vörsluskylda stórgripa enda eru það að mínu mati þeir einu nútímabúskaparhættir sem mér finnst að ganga eigi út frá sem reglu í landinu, að stórpeningur gangi ekki laus á meiri háttar umferðaræðum eða þjóðvegum landsins.

Um frv. í heild sinni hef ég ekki margt að segja. Ég hygg að hér séu ágætar lagfæringar í flestum greinum á ferðinni á gildandi lögum um búfjárhald. Þó að þau séu í sjálfu sér ágæt og framkvæmd þeirra hafi í aðalatriðum, held ég, gengið vandræðalaust fyrir sig er að sjálfsögðu eitt og annað sem getur þurft að lagfæra. Hæstv. ráðherra upplýsti að þeir hefðu legið yfir þessu í ráðuneytinu og hefðu nú þegar komist að því að ákveðnir hlutir mættu betur fara í frv. Boðaðar voru brtt. sem er frekar óvenjulegt, að boðaðar séu umfangsmiklar brtt. á stjfrv. strax við 1. umr., þ.e. um leið og mælt er fyrir því ... (Landbrh.: ... vandvirkni.) Kannski má segja að það sé til marks um mikla vandvirkni --- ég vil ekki segja gott til eftirbreytni því að helst ætti ekki að þurfa að hnika mikið til því sem búið er að vanda vel til. En það er enginn maður að minni þó að hann viðurkenni að eitthvað megi betur fara sem hann hefur um vélað eða látið frá sér fara og það er að sjálfsögðu rétt og skylt að skoða það.

Af því að ráðherra nefndi sérstaklega gamlan kunningja minn, ákvæði í lögum um heimild ráðherra til að láta fara fram talningu búfjár, tel ég að á því orðalagi sem ráðherra lýsti að hann vildi þarna hafa og því sem er í sjálfu frv. sé bitamunur en ekki fjár. Aðalatriðið er að ég tel að ráðherra þurfi að hafa ótvíræðar heimildir til þess, ef ástæða þykir til, að sannreyna tölur um ásetning og búfjárfjölda í landinu. Fyrir því geta legið nokkrar mismunandi ástæður, það getur tengst samningum ríkisvalds og bænda um stuðning við tilteknar búgreinar, það getur tengst ásetningi og meðferð búfjár og það geta jafnvel verið fleiri ástæður fyrir því, eins og t.d. áhyggjur af ofbeit eða ofsetningu og þar fram eftir götunum. Það hlýtur að mega orða þetta þannig að það valdi ekki stórkostlegum vandræðum.

Sem sagt, herra forseti, ég hef á nokkrum undanförnum þingum flutt frv. til laga um breytingu á lögum um búfjárhald, forðagæslu o.s.frv., og það hefur gengið út á það að gera breytingar á núgildandi 5. gr. laganna um að þar bætist við málsgrein sem feli í sér vörsluskyldu stórgripa, þ.e. nautgripa og hrossa. Frv. hefur allan tímann gert ráð fyrir því að slíkum breytingum yrði veittur rúmur aðlögunartími þannig að menn hefðu 2--3 ár, 2--3 sumur getum við sagt, til að bregðast við og undirbúa sig undir breytingarnar á þeim tiltölulega fáu svæðum í landinu þar sem slík vörsluskylda er ekki nú þegar við lýði í gegnum samþykktir sveitarstjórna um búfjárhald. Það gildir um, að ég hygg, velflesta ef ekki alla kaupstaði landsins og það gildir um mjög mörg sveitarfélög í dreifbýli en ekki öll, eins og kunnugt er. Og þar eru árekstrarnir, þar eru vandræðin enn uppi. Ég hef á hverju einasta ári, líklega í um tíu ár, safnað saman eða fengið frá áhugamönnum upplýsingar um fjölda árekstra milli umferðar og búpenings og það hefur því miður allt of lítið miðað, í raun og veru ekki neitt núna síðustu árin í þeim efnum. Ég sé ekki annað en að algjör stöðnun sé ríkjandi í þeim efnum nema þá í þeim mæli sem girðingar eru að lokast meðfram vegum á ákveðnum svæðum en það er enn langt í land að svo sé á nokkrum af þeim svæðum þar sem árekstrar umferðar og stórgripa eða búfjár eru tíðastir. Það verður að mínu mati, herra forseti, að koma þessu máli í einhverja viðunandi höfn.

Nú er hér í þessu frv. sérstakur kafli sem ber millifyrirsögnina Varsla búfjár, III. kafli, og þar eru óbreyttar sýnist mér, eða a.m.k. lítt breyttar, heimildir sveitarfélaga til að ákveða vörslu allt árið eða hluta þess, og síðan ákvæði sem vísa varðandi kostnað við girðingar í girðingar- og vegalög, sem eðlilegt er, þannig að með vörsluskyldu sem slíkri er ekki verið að breyta því fyrirkomulagi sem lög að öðru leyti mæla fyrir um hvað varðar skiptingu kostnaðar milli t.d. bænda og Vegagerðar. Það er þá ósköp einfaldlega vísað í þau lög sem þar gilda. Ég sé ekki, því miður, að það líti út fyrir að á þessu ástandi verði mikil breyting til bóta nema farið verði í ákveðnari aðgerðir en hingað til hafa komið til. Það var ákveðið að láta á það reyna með því að styrkja heimildir sveitarstjórna til að ákveða vörsluskyldu þegar lögum var breytt um búfjárhald. Ég hygg að það hafi verið árið 1990 frekar en 1991 sem ákveðið var að gera tilraun í þessum efnum og í kjölfarið settu allmörg sveitarfélög samþykktir og fyrirskipuðu vörsluskyldu og yfirleitt hefur sú leið verið valin að þar væri þá um að ræða vörsluskyldu á stórgripum en öðru máli gegndi um sauðfé, enda ólíku saman að jafna. Slys eða óhöpp eru sjaldnast nándar nærri jafnalvarleg þegar sauðfé á í hlut, og ég held að velflest slys og t.d. næstum öll banaslys vegna árekstra á vegum milli bifreiða og búpenings hafi orðið þegar stórgripir eiga í hlut.

Síðan hefur núna um nokkurt árabil mjög lítið gerst í þessum efnum, m.a. vegna þess að menn urðu hræddir við dómsmál sem gengu um bótaábyrgð í þeim tilvikum sem vörsluskylda var við lýði, og forsvarsmenn einhverra sveitarfélaga óttuðust að þeir gætu verið að veikja réttarstöðu umbjóðenda sinna í slíkum tilvikum. Það leiddi til þess að lítið hefur gerst í þessum efnum og jafnvel einstöku brögð að því að menn hafi fellt úr gildi á nýjan leik samþykktir sem komnar voru um vörsluskyldu. Sem betur fer hafa þó velflestar sveitarstjórnir í landinu ekki hvikað frá þeim reglum sem þær höfðu sett sér og við gætum hugleitt, herra forseti, hvernig ástandið væri ef það hefði almennt gerst og menn hefðu færst á nýjan leik ár eða áratugi aftur í tímann hvað það varðaði að stórgripir væru valsandi um á þjóðvegum landins. Það er auðvitað alveg sama hvernig á það mál er litið, þetta fer ekki saman og það verður með hverju ári, held ég, augljósara að eins og hraði í nútímaumferð er orðinn og allar aðstæður eru er algjörlega óviðunandi ástand að þetta skuli ekki komast í lag.

Ég hef verið að velta því fyrir mér, herra forseti, úr því það ber svo vel í veiði að hæstv. landbrh. er hér með frv. til endurskoðunar á lögum um búfjárhald, að gera eina tilraun enn og þá í því formi að flytja brtt. um vörsluskyldu stórgripa í landinu að undangengnum ríflegum aðlögunartíma þannig að t.d. frá 1. sept. árið 2004 eða 2005 yrði þetta reglan og menn tækju síðan sameiginlega á því, landeigendur, sveitarfélög, Vegagerð og aðrir sem í hlut eiga, að koma málum í viðunandi horf þannig að mönnum yrði ekki til nokkurra vandræða að uppfylla þessi lagaákvæði þegar þar að kæmi og helst fyrr.

Í langflestum tilvikum þýða þetta ekki nein útgjöld eða nein vandamál fyrir bændur miðað við þá búskaparhætti sem þeir stunda í dag, ekki heldur innan þeirra sveitarfélaga þar sem vörsluskylda er ekki reglan, af þeirri einföldu ástæðu að langalgengast er að stórgripir, hross og nautgripir, séu alfarið innan girðinga og þannig á það auðvitað að vera. Það má hafa svona reglu undanþæga hvað varðar hagagöngu, upprekstur hrossa eða aðra hagagöngu stórgripa þar sem aðstæður eru þannig að umferð stafar ekki af því nein hætta sökum þess að land liggur fjarri öllum alfaraleiðum. Þá er að sjálfsögðu engin ástæða til að skylda það út af fyrir sig að hagagangan skuli vera innan girðinga ef hún skapar enga hættu fyrir umferð. En alls staðar þar sem það getur gerst á þetta að vera svo.

Ég ætla ekki að gefast upp, herra forseti, í þessu máli á meðan á hverju einasta ári koma enn því miður nokkrum sinnum, oftast á haustin, dapurlegar fréttir af slysum sem verða af þessum sökum. Okkur ber að halda áfram að reyna að koma þessum málum í lag. Og mér hafa enn ekki verið sýnd rök fyrir því að það sé hægt að gera með fullnægjandi hætti á annan hátt en þennan, að lögfesta þessa almennu reglu að stórgripir skuli vera í vörslu nema með þeirri undanþágu að alveg sýnt sé að það valdi engum vandamálum samfara umferð og gefa mönnum rúman aðlögunartíma til að mæta þeim breytingum sem þessu yrðu samfara. Þá er þessi kaleikur líka tekinn af herðum sveitarstjórnanna sem er alveg skiljanlegt, út frá þeirra aðstæðum, að er ekkert endilega þægilegt að hafa í höndunum, og ég held að við eigum þá bara að taka af skarið á hinu háa Alþingi og setja um þetta skynsamleg og sanngjörn lög.