Búfjárhald o.fl.

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 17:43:36 (3454)

2002-01-22 17:43:36# 127. lþ. 57.4 fundur 338. mál: #A búfjárhald o.fl.# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og undirtektir þingmanna við frv.

Ef ég kem inn á nokkur atriði sem hér voru rædd, þá var það hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem fyrstur talaði og fór ekki síst yfir eitt mesta vandamálið sem blasir við okkur í umferðinni, slys af völdum þess að ekið er á búfé, og ræddi það mál sem hann hefur barist fyrir um vörsluskyldu eigenda stórgripa.

Ég get að mörgu leyti tekið undir málflutning hv. þm., sem eitt sinn var landbrh. og samgrh., ef ég man rétt, og einn af þeim síðari sem naut þess að hafa bæði þessi störf með hendi. En auðvitað hefur hann á þeim tíma áttað sig mjög á þessum vanda sem kannski velkist á milli. Ég minnist þess að eitt af mínum fyrstu verkum hér var að gefa Alþingi skýrslu um störf nefndar sem fyrirrennari minn skipaði um þetta málefni og það voru einar 12 eða 16 tillögur til úrbóta, ef ég man rétt. Ríkisstjórn og við ráðherrar sem nú sitjum höfum rætt þetta okkar á milli, þ.e. dómsmrh., samgrh. og sá er hér stendur og fer með landbúnaðarmál, þannig að þessi umræða hefur verið uppi og hvernig beri að taka á umræddu vandamáli. Og því miður er þessi tillaga hér sem hv. þm. gagnrýnir og telur að þyrfti að vera skýrari --- það liggur fyrir t.d. í girðingarlögunum sem ég flutti áður að girðingar með þjóðvegum eru alfarið mál samgrh. og Vegagerðarinnar og um þær gilda sérstakar reglur, þannig að vandamálið er auðvitað í höndum eða undir yfirstjórn samgrh. hvað þetta varðar. En ég tek undir með hv. þm. að hér er mjög stórt mál sem sannarlega þyrfti að taka á og ná samstöðu um á milli ráðuneyta og ekki síður við bændastéttina hvernig brugðist verður við. Ég á þá við ekki síst umferð um þjóðveg 1, hringveginn sjálfan, og hygg ég að hv. þm. sé að tala um hann. Hann minntist á slys sem oft verða, ekki síst þegar skammdegið skellur yfir, í kringum hross sem koma inn á vegina.

[17:45]

Það eru mörg vandamál sem geta kostað mikla peninga og ég tel að ríkisvaldið þyrfti að greiða. Það liggur fyrir t.d. að þjóðvegur 1, hringvegurinn, klýfur tugi bújarða þar sem menn verða að fara jafnvel yfir þessa hraðbraut með stórgripi sína, t.d. kýr, eins og ég þekki úr mínu umdæmi. Vegagerðin féllst ekki á sínum tíma á kröfur manna um rennu undir veginn eða undirgöng, eins og hefði verið auðvelt að gera þegar verið var að byggja upp vegina, þó að það sé algengara nú.

Eins er það náttúrlega, sem er kannski áhyggjuefni, að margir af reiðvegum okkar eru byggðir innan girðingarinnar með hraðbrautinni þannig að hestamenn stunda útreiðar mjög grimmt á hraðbrautinni eða meðfram henni. Að vísu eru þeir ríðandi á hestinum og teyma hina og eru með þá þannig í vörslu. En af þessu skapast hætta.

Ég get alveg tekið undir með hv. þm. að kannski verður ekki alvara úr þessum málum fyrr en menn setja sér álíka markmið og hann setti fram í ræðu sinni, t.d. að fyrir einhverja ákveðna dagsetningu, 2004 eða 2005, verði þessi mál komin í þetta horf hvað hringveginn varðar og menn setjist yfir það á þeim tíma að gera það sem gera þarf til þess að það geti tekið gildi. Sannarlega er það nú svo að fyrir þjóðina og einstaklingana eru slysin, ekki síst á mönnum, sem hljótast í þessum árekstrum við stórgripina slíkur harmleikur að þau slys verða aldrei einu sinni metin til fjár, þegar um mannslíf jafnvel týnast og stórslys verða á fólki. Ég get því alveg tekið undir það með hv. þm. að ég held að það ætti að vinna að þessu máli með þeim hætti hvað hringveginn varðar og ríkið gerir sér í dag, finnst mér, betur grein fyrir því að það á þennan veg og ber ábyrgð á honum. Það verður þá að tryggja þetta þar sem ríkið hefur tekið vegina lögtaki, klofið vegina út úr jörðum og klofið þær í tvennt, þ.e. það ber miklar skyldur á þeim stöðum sem það þarf að svara fyrir og kostar það oft ekki mikla peninga. Ég get tekið undir þá sýn hv. þm. að þetta er sennilega sú leið sem menn eiga að horfa á.

Svo hafa hér komið fram ýmis önnur atriði. Hv. þm. ræddi það líka að hér væri ráðherra að boða breytingar á meðan hann væri að flytja málið. Það er hárrétt. Það er kannski ekki algengt. Ég kaus það frekar heldur en að tefja þetta mál. Ég vildi að það kæmist sem fyrst til nefndar, annars hefði það kostað það að ég hefði ekki talað fyrir því í dag, það hefði dregist, og svo hitt að þetta hefur auðvitað líka komið upp í sambandi við frv. um gæðastýringu sem var á leiðinni. Það þarf að samræma það frv. og þetta, gæðastýringuna í sauðfjárræktinni o.s.frv.

Svo er þetta sem ég minntist á um talningu búfjár. Ég get ég tekið undir það með hv. þm. að það er bitamunur en ekki fjár á því sem kom fram í máli mínu, en það er þó skýrara að menn eru að eiga við þá sem vilja fara aðrar leiðir en lögin telja. Það er ekki verið að boða herferð gegn öllum þeim heiðarlegu, tryggu og vandvirku mönnum sem alltaf fara að lögum og reglum og telja sjálfir mjög mikilvægt að lögin séu skýr o.s.frv.

Hv. 9. þm. Reykn., Sigríður Jóhannesdóttir, kom inn á nokkur atriði og minntist á sérálit Gunnars Sæmundssonar sem ég þekki og gjaldtökuna sem gefinn er kostur á. Hv. þm. taldi að þetta væri sameiginlegt mál allra sem í sveitarfélaginu búa. Auðvitað kann það nú að vera hin sósíalíska gamla hugsun, en ekki er víst að hún gangi upp í dag við breyttar aðstæður þar sem sveitarfélögin eru mjög blönduð af þegnum og ýmsar skyldur hvíla á hverjum atvinnuvegi eða atvinnugrein þannig að út frá jafnræðisreglu gæti meira að segja verið að mismuna atvinnugreinum ef þannig væri. Svo er hitt líka hættulegt fyrir landbúnaðinn, þ.e. að mikil óánægja gæti orðið ef slík gjaldtaka yrði lögð af sveitarfélaginu á hina þegnana sem ekki eiga dýr. Við þekkjum það t.d. varðandi hundahald að sveitarfélög leggja gjöld á þá sem eiga hunda í sveitarfélaginu en ekki hina. Landbúnaðurinn er atvinnuvegur þannig að mér fannst erfitt annað en að leggja frv. þannig fram að þetta væri sérmál atvinnugreinarinnar og yrði við það að miða að gjaldtökunni væri fyrst og fremst beint til þeirra sem búa með dýrin.

Hv. þm. Þuríður Backman minntist á kröfur um að skrá allt. Það er hárrétt hjá hv. þm. Miklar kröfur eru um það. Ég hef t.d. legið núna vikur eða mánuði með reglugerð um merkingu búfjár og rekjanleika þannig að hægt verði að rekja lífstíð dýrsins frá vöggu til grafar, eins og sagt er. Þetta eru nú svona kröfur sem koma hingað vegna sjúkdóma, ekki síst í Evrópu og eru kannski í kröfugerð sem þar er sett fram til allra þjóða burt séð frá heilbrigði. Menn eiga enga leið inn á markaðinn nema að fylgja einhverjum slíkum reglum. Ég get tekið undir það með hv. þm. að þarna er mjög mikilvægt að fara varlega og ganga ekki lengra en þarf og helst að gefa mönnum aðlögunartíma.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson var hér svo síðastur og spurði um illa meðferð búfjár og hvernig þeim málum hafi lokið. Ég vil auðvitað ekki ræða hér um einstök mál sem upp hafa komið. Ég þekki mörg eða nokkur mál á síðustu árum sem hafa verið mjög erfið meðferðar, gengið seint til dóms og jafnvel aldrei lokið. Og auðvitað er hitt enn betur vitað að oft er erfitt að fá stjórnvöld, hvort sem það eru sveitarstjórnirnar, sýslumaðurinn eða dýralæknar, til þess að taka á slíkum málum sem skyldi þannig að þau eru alltaf sama vandamálið. En ég vona að svona frv. og ýmsar aðrar aðgerðir styrki það, ekki síst gæðastýring og krafa bændanna sjálfra um að slíkir einstaklingar sem eru tiltölulega fáir í bændastéttinni verði einangraðir og að auðveldara verði að einangra þá.

Ég get nefnt sem dæmi að fram kom krafa um að í þessu frv. væri ákvæði, þ.e. til þess að auðveldara yrði að eiga við þetta, um að hver einasti maður sem eignaðist skepnu --- ef hv. þm. vildi t.d. kaupa sér lamb eða fengi gefins folald --- þyrfti bréf frá ríkinu. Ég vildi ekki bera þá tillögu hér fram og vera sá landbrh. sem fyrstur setti svo flókið kerfi á að það þyrfti bréf upp á alla skapaða hluti, að barnið sem fengi fermingargjöf með þessum hætti yrði að fá bréf frá ríkinu um að það mætti eiga þessa skepnu. En þetta töldu menn að auðveldaði að taka af mönnum leyfi.

En ég segi: Það er ansi hart að þurfa að setja slíkar kröfur á 99% þeirra sem standa sig vel í þessu, fara vel með skepnurnar og hirða vel um þær í staðinn fyrir að einangra hið eina prósent og taka á þessu eftir landsins lögum með þeim hætti að á þeim einum verði tekið sem þannig bregðast skyldu sinni við lífið að fara illa með dýrin. Það varð því niðurstaðan að hafa frv. frekar með þessum hætti.

Ég ætla að láta minni ræðu lokið, hæstv. forseti, og þakka enn og aftur fyrir umræðuna.