Búnaðarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 17:56:33 (3455)

2002-01-22 17:56:33# 127. lþ. 57.5 fundur 350. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998. Frv. er á þskj. 485. og er 350. mál þessa þings.

Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil vakning um gildi varðveislu þeirra verðmæta sem felast í fjölbreytileika náttúrunnar.

Hér á landi hófst skipulegt starf á þessu sviði með stofnun erfðanefndar búfjár samkvæmt lögum um búfjárrækt, nr. 84/1989. Núverandi erfðanefnd er skipuð samkvæmt ákvæðum 16. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, og eiga sæti í henni fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veiðimálastofnun. Nefndinni er ætlað að fylgjast með og halda skrá um erfðabreytileika og þróun hans í búfjárstofnum og ferskvatnsfiskum og gera tillögur til landbúnaðarráðherra um verndun tegunda og stofna í útrýmingarhættu.

Sérstaða Íslands er veruleg í þessu efni þar sem stór hluti þess plöntuerfðaefnis sem hér er notað í ræktun er af útlendum uppruna. Búfjárræktin byggist hins vegar að miklu leyti á gömlum búfjárkynjum sem eru sérstæð í hópi framleiðslukynja.

Með frv. því sem hér er flutt er lagt til að gerð verði breyting á ákvæðum 16. gr. búnaðarlaga um erfðanefnd búfjár og hlutverki nefndarinnar breytt þannig að hún fjalli um allar erfðalindir í landbúnaði. Samkvæmt gildandi ákvæðum hefur erfðanefndin sem fyrr segir einungis með að gera erfðalindir í búfé og vatnafiskum. Breytingin felur það í sér að nefndin fjalli einnig um erfðalindir í nytjaplöntum og trjám. Þær breytingar sem hér um ræðir eru í samræmi við alþjóðlegar og norrænar skuldbindingar Íslendinga.

Helstu verkefni nefndarinnar skulu vera:

a. að annast samráð innan lands um varðveislu erfðalinda í landbúnaði,

b. að hvetja til rannsókna á sviði erfðalinda í landbúnaði,

c. að stuðla að miðlun þekkingar um erfðalindir og gildi þeirra, jafnt með kennslu sem upplýsingagjöf til almennings,

d. að veita hagsmunaaðilum og stjórnvöldum ráðgjöf um varðveislu og nýtingu erfðalinda í landbúnaði,

e. að annast samskipti við erlenda aðila á þessu sviði í samstarfi við tengiliði Íslands hjá alþjóðastofnunum.

Frv. gerir ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um verkefni nefndarinnar.

Með skilgreiningunni nytjajurtir og tré er átt við jurtir og tré sem notuð eru í ræktun hér á landi en ekki villtar jurtir og tré. Hafa ber í huga í þessu sambandi að breytingar geta orðið á því hvaða jurtir og tré eru skilgreind sem villt. Til dæmis eru tilraunir nú hafnar með ræktun ýmissa villtra jurta, svo sem hvannar og vallhumals, til nota í fæðubótarefni og lyf. Ef slíkar tilraunir skila góðum árangri mundu þessar jurtir flokkast undir nytjajurtir í skilningi laganna.

Í samræmi við þessar breytingar á hlutverki erfðanefndar er lagt til að fjölgað verði í erfðanefnd úr fimm í sjö og hana skipi fulltrúar tilnefndir af Bændasamtökum Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Skógrækt ríkisins, Veiðimálastofnun og umhverfisráðuneyti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar.

Hæstv. forseti. Frv. sem hér er flutt er afrakstur af starfi nefndar sem ég skipaði 9. febrúar sl. til þess að gera tillögur um hvernig innlendri forsjá erfðalinda í húsdýrum, ferskvatnsfiskum, nytjaplöntum og skógrækt skuli háttað. Verði frv. að lögum mun ég fela nefndinni að vinna áfram og semja drög að reglugerð um nánari útfærslu á ákvæðum þess.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. landbn. og 2. umr.