Búnaðarlög

Þriðjudaginn 22. janúar 2002, kl. 18:08:17 (3459)

2002-01-22 18:08:17# 127. lþ. 57.5 fundur 350. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé alveg skýrt að þetta mál heyrir undir landbrh. og þær stofnanir sem koma að málinu eru allt stofnanir landbúnaðarins og Bændasamtaka Íslands. Það eru Bændasamtökin, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Skógrækt ríkisins og Veiðimálastofnun. Og síðan skipar landbrh. formann nefndarinnar án tilnefningar. Síðan kemur þarna einn aðili úr annarri átt sem þykir mjög eðlilegt frá þeim geira, eða umhvrh., og þetta er tillagan. Ég sé ekkert athugavert við hana. Í henni liggur ekkert samsæri. Það hefur enginn talað um þær breytingar sem menntmrh. hefur boðað við mig, hvorki sú nefnd sem hér starfaði eða að það hafi komið til tals í þessum málum. Þetta er því tillaga nefndarinnar. Þetta er tillaga mín fyrir þinginu og þingið fjallar eðlilega um það. Hv. þm. situr í landbn., ekki rétt? Þannig að hæg eru heimatökin til að fara yfir hvort vatnið sé gruggugt. En ég fullyrði að þetta þykir faglegra með þessu móti. Og auðvitað hefur umhvrh. eins og sá sem hér stendur fullt val um hvaðan hún sækir sinn mann, hvort það er frá Náttúrufræðistofnun, ráðuneytinu eða einhvers staðar annars staðar frá.