Áhrif lækkunar tekjuskatts

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 13:47:46 (3467)

2002-01-23 13:47:46# 127. lþ. 59.1 fundur 351. mál: #A áhrif lækkunar tekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að svo undrandi sem maður varð á þessari fyrirspurn, því að hv. þm. Pétur Blöndal virtist reikna með því að hægt væri að meta það jafnvel upp á tvo aukastafi hvaða áhrif á verðmæti eigna á markaði breyting á einum einasta þætti sem lýtur að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna hefði, þá varð maður enn meira hissa á að hæstv. viðskrh. skyldi treysta sér til að svara og tala í prósentum og tölum eins og hér væri um nákvæmnisvísindi að ræða. Ég hélt að þetta væri þannig að jafnvel þó að menn reyndu að mæla þetta í núinu með öllum fyrirvörum um áhrif slíkra hluta inn í framtíðina þá gæti aldrei orðið um annað en einhvers konar ágiskanir að ræða. En látum það nú vera.

Hafi það svona umtalsverð áhrif á eignarhlut ríkisins til hækkunar að lækka skatta, hvaða gjöf var þá verið að gefa öðrum hlutafjáreigendum í landinu? Eigum við ekki að taka það með í dæmið líka?