Áhrif lækkunar tekjuskatts

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 13:48:59 (3468)

2002-01-23 13:48:59# 127. lþ. 59.1 fundur 351. mál: #A áhrif lækkunar tekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[13:48]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Þetta er sannarlega furðuleg umræða og vekur upp minningar um það þegar hæstv. forsrh. talaði um það hér rétt fyrir áramótin að ein hagstærð, nefnilega gengið, hefði tekið að lifa sjálfstæðu lífi. Nú virðist önnur vera farin að taka sig til og kljúfa sig út úr þeim samsetta frumulíkama sem efnahagskerfið er, nefnilega úrvalsvísitalan sem hv. þm. Pétur Blöndal og hæstv. viðskrh. ræða hér um eins og hún sé búfé í haga. Það er auðvitað þannig, eins og rætt var um í viðskiptablaði Morgunblaðsins fyrir skömmu, að skammtímabreytingar á úrvalsvísitölunni á hlutabréfagengi segja ekki nokkurn skapaðan hlut. Það verður að taka fimm ár eða tíu, jafnvel 15--20 til dæmis um hvað er að gerast í þeim málum fyrir haglíkamann.

Hins vegar vekur athygli að hv. þm. Pétur Blöndal spyr hér eins og tekjuskattslækkanir séu sérstakt verkfæri til þess að auka verðmæti tiltekinna hlutabréfa í fyrirtæki sem ríkið er með. Ég spyr viðskrh.: Er það svo og teljast það góðir viðskiptahættir að beita sér þannig?