Forvarnasjóður

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:06:25 (3476)

2002-01-23 14:06:25# 127. lþ. 59.2 fundur 352. mál: #A Forvarnasjóður# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir ágæt svör við þeim fyrirspurnum sem ég bar fram. Þar komu fram mjög athyglisverðar upplýsingar, t.d. um hlutfall verkefna af heildarfé sem hefur farið vaxandi.

Ég þakka einnig hv. þm. fyrir umræðuna sem var nokkuð góð. Hv. þm. sem sitja í hv. fjárln. komu hér og vörðu störf hennar og sögðu að hún setti mörg verkefni í gang og styrkti auk þess mörg góð verk. Þetta er að sjálfsögðu rétt. En ég lít ekki á það sem hlutverk Alþingis að standa í framkvæmdum. Ég tel hlutverk Alþingis fyrst og fremst að setja lög. Það er framkvæmdaraðila að sjá um framkvæmdir. Ef einhver verkefni eru brýn á sviði menningarmála eða annarra verkefna þá er það ráðherranna að sinna þeim verkefnum þannig að þingheimur sé ánægður með. Ef þeir ekki sinna þeim verkefnum rétt þá getur þingið bara sett þá af og fengið til þess aðra ráðherra.

Varðandi spurninguna um kynjaskiptinguna og talningu eftir kynjum þá hafa sumir lagt á það mikla áherslu. Ég hef ekki lagt mikla áherslu á það. Ég held að hausatalning í nefndum og ráðum lagi ekki neitt jafnrétti kynjanna.

Ég kom með þessa fyrirspurn vegna þess að sumir hv. þm. hafa lagt áherslu á að það skipti máli hversu margar konur eða karlar sitji í nefndum og ráðum. Ég kom líka inn á það í einni spurningunni hve mikið af styrkjum færu út á landsbyggðina. Sumir hv. þm. hafa kvartað undan því að lítið fé fari til landsbyggðarinnar og það er einmitt nokkuð sem hv. Alþingi á að spyrja hæstv. ráðherra um: Hvernig er kynjaskiptingu háttað og hve mikið fé fer til landsbyggðarinnar?

Ég þakka þessa umræðu og tel að einmitt svona eigi Alþingi að fjalla um fjárveitingar.