Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:21:11 (3482)

2002-01-23 14:21:11# 127. lþ. 59.3 fundur 364. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Varðandi svarið við fyrstu spurningunni um að kanna hagkvæmni sjúkrahótela fyrir sjúklinga, fyrir heilbrigðisþjónustuna, fyrir ríkissjóð og fyrir Tryggingastofnun ríkisins, þá tel ég að svarið hafi verið almennt og það væri mjög æskilegt að hæstv. ráðherra léti fara yfir þetta lið fyrir lið og hafa tölurnar alveg á hreinu, því að sannarlega hefur það verið mikill sparnaður fyrir ríkissjóð að Rauði krossinn hafi rekið sjúkrahótelið fram til þessa.

Það er mér ánægja að heyra að framlengja eigi samninginn við Rauða krossinn, en eftir stendur að Rauði krossinn hefur borið mikinn kostnað af þeim einstaklingum sem hafa dvalið umfram það sem daggjöldin hafa greitt fyrir og ég vona svo sannarlega að það verði gert upp í nýjum samningi og kostnaðurinn ekki gjaldfærður á Rauða krossinn.

En það kom heldur ekki fram í svari hæstv. ráðherra nein ábending um að fara ætti í frekari uppbyggingu á rekstri sjúkrahótela, fjölga plássum eða með hvaða hætti ætti þá að tengja sjúkrahótelin við rekstur stóru sjúkrahúsanna eða hvernig ætti að finna sjúkrahótelinu stað innan heilbrigðiskerfisins. Það er mikil þörf á slíkum plássum. Í rekstri sjúkrahótela er mikill sparnaður. Það er mikil hagræðing fyrir einkareknu stofurnar sem eru með skurðstofuaðstöðu úti í bæ, þær verða að treysta á að hafa gistingu fyrir sjúklingana annars yrði að vera sólarhringsþjónusta hjá þeim aðilum. Þetta er mikil og góð þjónusta fyrir sjúklingana og mikið öryggi og því hefði ég óskað eftir að fá ítarlegri svör.