Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:23:50 (3483)

2002-01-23 14:23:50# 127. lþ. 59.3 fundur 364. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir með þeim sem hafa tekið til máls að sjúkrahótel eru mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustunni. Ég held að sú tilraun sem gerð hefur verið sanni það. Auðvitað er þörf á því þegar þessu tilraunaverkefni er nú lokið og þáttaskil í starfseminni að meta ítarlegra í krónum og aurum hver hagkvæmnin er. Þær tölur liggja ekki fyrir nú. En ég þakka þær ábendingar og það hefur auðvitað verið rætt í ráðuneytinu.

Varðandi það hve mörgum hefur verið vísað til baka of veikum til að fara á sjúkrahótel, þá ég hef ekki þær tölur en ég er tilbúinn til þess að afla þeirra upplýsinga.

Síðan var komið inn á frekari uppbyggingu sjúkrahótela. Ég get alveg sagt það hreinskilnislega að ég tel allt benda til þess að fara ætti í frekari uppbyggingu á slíkum úrræðum. Við höfum hins vegar einbeitt okkur að því að framlengja samninginn og fjölga rýmunum og tryggja þannig 40 rými með samningi við Landspítalann og samningi við Rauða krossinn. Ég tel að við getum náð saman. Við höfum beitt kröftum okkar að því núna en ég tel alveg fulla þörf á því að fara síðan yfir framhaldið og hvernig við getum aukið þessa starfsemi. Ekki er útlit fyrir að við getum aukið það á þessu ári nema að tryggja 40 rými, þessi 12 rými til viðbótar við 28 voru í nokkru uppnámi en ég tel að það sjái fyrir endann á því máli.