Húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:26:21 (3484)

2002-01-23 14:26:21# 127. lþ. 59.4 fundur 376. mál: #A húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Heilsuverndarstöð Reykjavíkur á sér langa sögu og er eitt fallegasta hús borgarinnar, teiknað af Einari Sveinssyni arkitekt. Hugmyndir um byggingu Heilsuverndarstöðvarinnar má rekja allt aftur til ársins 1934 þegar Vilmundur Jónsson landlæknir kom með tillögu um að koma á fót heilsuverndarstöð. Þá hafði hjúkrunarfélagið Líkn, sem stofnað var 1915 að frumkvæði kvenna, starfað við heimahjúkrun efnalítilla sjúklinga, eins og sagt var, og að alhliða heilsuvernd, m.a. við ungbarna- og smábarnavernd, berklavernd, smitsjúkdómavernd og heilbrigðisfræðslu.

Bæjarráð Reykjavíkur samþykkti fyrst 12 árum síðar, árið 1946, að byggja heilsuverndarstöð. Ári síðar var hafist handa en það var ekki fyrr en tíu árum seinna eða 1957, fyrir réttum 45 árum, sem Heilsuverndarstöð Reykjavíkur var vígð. Vegna skorts á sjúkrarými í Reykjavík var hún rekin að hluta til sem sjúkrahús fyrst í stað jafnhliða heilsuverndarstarfsemi þar til Borgarspítalinn tók til starfa. Margir áttu þar spor t.d. á slysadeildina sem var þar til húsa í mörg ár.

Með lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1974 var gert ráð fyrir að starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar færðist að mestu til heilsugæslustöðva og starfaði hún upp frá því með stoð í bráðabirgðalögum sem framlengd voru fyrst í nokkur ár í senn og síðan árlega.

Ákvæðið um Heilsuverndarstöðina féll úr gildi 1. maí 1997 og hefur hún því ekki verið til samkvæmt lögum sl. fimm ár. Samt sem áður fer þar fram blómleg starfsemi. Þar er miðstöð heilsuverndar barna og miðstöð mæðraverndar sem sinna verkefnum fyrir allt landið. Þá hafa ýmis lýðheilsuverkefni aðstöðu í húsinu, t.d. Árvekni, átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga, manneldisráð, áfengis- og vímuvarnaráð, verkefnið Ísland án eiturlyfja, skrifstofa skólatannlækninga og fleiri. Einnig er stjórnkerfi Heilsugæslunnar í Reykjavík og nágrenni í húsinu og fjórða hæðin er leigð Háskóla Íslands fyrir lestraraðstöðu læknanema.

Margar nefndir hafa verið settar á laggirnar sem hafa lagt fram tillögur um framtíðarhlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar og um nýtingu húsnæðisins. Hæst hafa borið tillögur um að Heilsuverndarstöðin verði sérstök heilsuverndarstofnun fyrir allt landið sem hafi umsjón með heilsuverndarstarfi og samræmingu og þróun heilsugæslu í landinu. Hins vegar hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um slíkt.

Vegna óvissunnar um framtíðarhlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar hafa margir rennt hýru auga til húsnæðisins. Komið hafa fram hugmyndir um að Landspítalinn nýtti það undir öldrunardeild o.fl., heilbrrn. og landlæknisembættið hafa orðað það að fara þangað inn og jafnvel hafa einkaaðilar viljað koma þangað inn með ólíka starfsemi.

En húsnæðið hefur verið hálfmunaðarlaust á undanförnum árum. Það er í eigu borgarinnar og ríkisins en eignaraðildin að því virðist vera óútkljáð og það hefur staðið í vegi fyrir framtíðarnýtingu þess og þennan ágreining verður að leysa sem allra fyrst. En mörgum er umhugað um að húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar verði notað áfram undir heilsuverndarstarfsemi og þess vegna varpa ég fram þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra.