Sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:51:53 (3494)

2002-01-23 14:51:53# 127. lþ. 59.5 fundur 382. mál: #A sjóðir starfsfólks heilsugæslustöðva# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin, velflest, nema kannski við 7. liðnum. Hann svaraði því til að það væru engir sjóðir hjá heilbrrn. til slíkra hlunnindaveitinga, en ég spurði miklu víðtækar. Ég spurði: ,,Njóta starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins og stofnana þess svipaðra eða annarra fríðinda eða styrkja? Eru slík hlunnindi skattskyld?`` Og ég ítreka þá spurningu.

Það er ljóst að endurmenntun starfsmanna er hluti af starfskjörum og það er hluti af rekstri og góðri stjórnun fyrirtækis að gera ráð fyrir peningum í þau verkefni og þarf ekki til þess markaða tekjustofna. Það er fráleitt að stjórnendur þurfi einhverja markaða tekjustofna til þess að stýra fyrirtækjunum á eðlilegan hátt. Þess vegna held ég að slíkir sjóðir eins og hér voru settir á laggirnar hafi ekkert gildi og er þar af leiðandi ánægður með að hann hafi verið lagður af eftir að þessar fréttir og fyrirspurn var samin.

En ég ítreka að allar slíkar sporslur eru til þess að gera launin ógagnsæ. Þær eru launaígildi. Það kemur fram í ályktun samkvæmt ljósvakahandriti 15. janúar sl. á Bylgjunni kl. 16, með leyfi herra forseta:

,,Tíundarsjóðir heilsugæslustöðvanna komu til á sínum tíma vegna ákvörðunar þáverandi ráðherra um að umbuna starfsfólki stöðvanna með 10% hlutdeild í þá nýtilkomnum komugjöldum í heilsugæslunni. Meðal annars var sjóðurinn stofnaður til að bæta starfskjör þeirra starfsmanna heilsugæslunnar sem lægst hafa launin.``

Þetta kom frá starfsfólki heilsugæslustöðvarinnar í Árbæ. Þetta var umbun. Þetta var hluti af launum og gerir launin ógagnsæ. Baráttumenn fyrir jafnrétti kynjanna sem vilja að laun séu jöfn til beggja kynja ættu að berjast gegn slíku ógagnsæi.