Könnun á vegum OECD á námsgetu skólabarna

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 14:57:41 (3496)

2002-01-23 14:57:41# 127. lþ. 59.6 fundur 354. mál: #A könnun á vegum OECD á námsgetu skólabarna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Í síðasta mánuði kynnti hæstv. menntmrh. afar athyglisverða könnun sem gerð var á vegum OECD. Könnunin, svonefnd PISA-könnun, er mjög umfangsmikil alþjóðleg rannsókn þar sem mældur er árangur 15 ára nemenda í lestri, stærðfræði og náttúrufræði. Markmiðið með rannsókninni er m.a. að meta hvernig skólarnir undirbúa nemendur fyrir framtíðina. Þeir sem standa að skólakerfinu í einni eða annarri mynd eins og nemendur, foreldrar, ráðherrar, þingmenn, embættismenn, skólastjórnendur og kennarar verða að vita hvort unga fólkið okkar hafi öðlast þá þekkingu og hæfni sem á þarf að halda svo það geti tekið þátt af fullum krafti í okkar nútímasamfélagi.

PISA-könnun er gott mælitæki til þess og kærkomið tækifæri. Því tel ég rétt að þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að láta okkur Íslendinga vera þátttakendur í svo mikilsverðri könnun eða rannsókn sem gerir okkur kleift að bera okkur saman við aðrar þjóðir á hinum alþjóðlega vettvangi.

Ég ætla, herra forseti, aðeins að stikla á því sem mér fannst hæst bera í könnuninni. Við Íslendingar tilheyrum efri hlutanum hvað lestur varðar. Þegar þetta er skoðað aðeins betur sjáum við að hlutfall íslenskra nemenda sem geta túlkað og skilið flókið ritað mál er sambærilegt meðaltali OECD-landanna allra en nokkuð lægra en hjá þeim þjóðum sem ná hvað bestum árangri.

Þegar athuguð er lágmarksgeta í lestri kemur í ljós að hér er hlutfall þeirra marktækt lægra, þ.e. við erum færri í þeim hópi en önnur OECD-ríki sem bendir því réttilega til þess að við erum að sinna hinum lökustu nemendum mjög vel.

Stelpurnar stóðu sig líka betur í lestri í öllum þátttöku\-löndum. Í stærðfræði stóðu íslensku nemendurnir sig vel og nokkuð betur en meðaltal OECD-landanna og var lítill munur á kynjunum hér á landi.

Mér finnst athyglisvert að í mörgum löndum OECD-kannananna stóðu strákarnir sig betur í stærðfræði, en hins vegar stóðu stelpurnar sig ekki síður ef stærðfræðiverkefnið reyndi á lestrarkunnáttu.

Í náttúrufræði virðist árangurinn ekki hafa verið nægilega góður hér á landi. Mér skilst að með breyttum áherslum í náttúrufræði í skólum landsins ásamt nýrri námskrá muni aukin áhersla verða lögð á náttúrufræði.

Einnig hefur komið í ljós að lítill munur er á milli lakasta og besta árangurs nemenda og reyndist munurinn vera á milli nemenda en ekki skóla. Þetta er að mínu mati styrkur hins íslenska skólakerfis og má taka undir þá fullyrðingu sem heyrst hefur þegar PISA-könnunin var rædd að ekki sé marktækur mismunur á námi hér á landi eftir landshlutum, hverfum eða efnahag.

Í OECD-löndunum standa nemendur með betri félagslega stöðu sig eitthvað betur en þeir sem hafa laka stöðu, en hér á landi gætir þessara áhrifa hins vegar lítið. Íslenskir nemendur hafa jafnan aðgang að námi, óháð efnahag og félagslegri stöðu.

Það er margt í PISA-könnuninni sem ég gæti tekið fram líka, en herra forseti, tími minn er á þrotum. Því spyr ég hæstv. menntmrh. hvernig hann hyggst nýta sér þessa könnun í þágu mennta- og skólakerfisins, uppbyggingu þess enn frekar, þannig að við náum enn hærra í könnuninni sem gerð verður 2003 og verður kynnt síðan árið 2004.