Útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:11:32 (3501)

2002-01-23 15:11:32# 127. lþ. 59.7 fundur 369. mál: #A útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GAK
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég taka fram að ég tel að björgunarmenn sem starfa á skipum og þyrlum Landhelgisgæslunnar séu afar færir og vel þjálfaðir starfsmenn sem oft hafa sýnt frábært áræði og dug við erfiðar aðstæður við björgun manna úr sjávarháska.

Af vel heppnuðum björgunaraðgerðum draga björgunarmenn Landhelgisgæslunnar lærdóm. Við, fólkið í landinu, erum glöð og stolt ef vel gengur, en sorgmædd og sár þegar sjómenn farast. Af björgunaraðgerðum sem ekki takast eins og vonir stóðu til verðum við líka að læra. Þess vegna er hér spurt:

,,1. Hver er skýringin á því að viðbragðstími við útkalli á TF Líf vegna sjóslyss við Svörtuloft föstudaginn 7. des. sl. var svo langur sem raun bar vitni?``

Í framhaldi af þeirri spurningu mætti spyrja: Af hverju fá björgunarmenn í þyrluáhöfn ekki sérljós sem þeir geta sett á bifreiðar sínar svo að þeir fái öruggan forgang í umferðinni í útkalli að flugvelli? Um það hefur verið beðið. Ég tel að tryggur forgangur í umferðarþunga borgarinnar geti vissulega stytt útkallstíma áhafnar þyrlunnar.

,,2. Hvers vegna var varnarliðsþyrla ekki kölluð út samtímis þar sem erfiðar aðstæður til björgunar við þessa strönd eru þekktar, m.a. úr sjóslysum þar sem aðeins var unnt að bjarga mönnum með þyrlu?``

Í framhaldi af því mætti spyrja: Er nú búið að koma þeirri skipan á að ávallt verði varnarliðsþyrlur einnig kallaðar út strax þegar veður og aðstæður eru jafnerfiðar til björgunar og var við Svörtuloft?

,,3. Hverjum í stjórnkerfi slysavarna ber að kalla eftir aðstoð varnarliðsins og hvers vegna dróst það í þessu tilviki?``

Fullyrt er að nætursjónaukar hafi við þessar erfiðu aðstæður skipt sköpum. Og spyrja mætti til viðbótar: Hvenær verða þá nætursjónaukar komnir í þyrlur Landhelgisgæslunnar eða skortir til þess fé? Ef svo er, hefur þá hæstv. dómsmrh. í hyggju að beita sér fyrir fjárveitingu til lausnar á því máli?