Útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:19:40 (3503)

2002-01-23 15:19:40# 127. lþ. 59.7 fundur 369. mál: #A útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er gott til þess að vita að menn hafi þegar lært af reynslunni. Nú hefur verið ákveðið að kalla einnig á þyrlu varnarliðsins þegar eins háttar til og við þessar erfiðu aðstæður við Snæfellsnes fyrir jólin.

Það er ljóst, herra forseti, að ef við alþingismenn eigum að gera eins vel við Landhelgisgæsluna og mér fannst hæstv. dómsmrh. óska eftir hér áðan þá þurfum við að horfa til þess að stofnunin býr við mikla fjárvöntun. Samkvæmt stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar hefur komið í ljós að stofnunina vantar 48 millj. kr. til að geta haldið uppi reglulegum rekstri og 80 millj. kr. á ári sé miðað við reglulegar tekjur hennar.

Herra forseti. Hér er því augljóslega við mikinn fjárhagsvanda að etja sem Alþingi hlýtur að verða að takast á við af meiri myndarskap en verið hefur. Okkur ætti að vera það ljósara en mörgum öðrum hversu mikilvægt er að Landhelgisgæslan sé undir öllum kringumstæðum það vel útbúin að hún geti tekist á við sjóslys og slys á landi. Eins og menn heyra og verða varir við er ekki síður kallað eftir björgunarþyrlum vegna slysa á landi.