Útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða

Miðvikudaginn 23. janúar 2002, kl. 15:23:51 (3506)

2002-01-23 15:23:51# 127. lþ. 59.7 fundur 369. mál: #A útkallstími björgunarþyrlu og stjórn björgunaraðgerða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. dómsmrh. fyrir það sem hér hefur komið fram.

Í annan stað vildi ég segja að ég kynnti mér hvernig að málum er staðið af hálfu varnarliðsins á Keflvíkurflugvelli vegna útkalls eins og hér um ræðir. Ljóst er að þeir þurfa tvo tíma frá því kall kemur þangað til þeir eru tilbúnir að fara í loftið. Kemur þar margt til, m.a. að þeir hafa ekki þá staðþekkingu sem okkar flugmenn hjá Landhelgisgæslunni hafa. Auk þessa, eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh., var veður með eindæmum á þeim tíma er þetta alvarlega slys varð við Svörtuloft. Það var á mörkum þess að hægt væri að opna dyr flugskýlisins þar sem þyrlan var geymd. Það hafðist þó. En undantekningarlaust þurfa þeir tvo tíma til að undirbúa sig. Þeir setjast niður, fara yfir leiðina sem á að fljúga, aðstæður o.s.frv. Þeir vinna mjög vel og faglega og það gerir Landhelgisgæslan líka.

Þetta er björgunarafrek og lofsvert hvernig varnarliðið stóð að því. Ég tel óskynsamlegt og ekki eðli málsins samkvæmt að draga inn í þetta mál önnur deilumál sem koma þessu máli ekki beint við. Við hljótum hins vegar að fagna því að liðsmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eru ætíð tilbúnir ef á þarf að halda.