Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 10:48:34 (3515)

2002-01-24 10:48:34# 127. lþ. 60.94 fundur 267#B heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Mörður Árnason:

Forseti. Hæstv. menntmrh. er að öllum líkindum á förum úr embætti sínu. Hans verður ekki saknað meðal áhorfenda, hlustenda og starfsmanna Ríkisútvarpsins. Hann sagði sjálfur að Ríkisútvarpið væri í tilvistarkreppu fyrir þremur árum. Ég hygg að það sé rétt. Rótin að tilvistarkreppu þess liggur hjá hæstv. menntmrh. sjálfum. Sú kreppa er sprottin af skorti á forustu sem hann á að hafa fyrir þessari stofnun, skorti á stefnumótun sem hann á að annast og skorti á fjárhagslegum umbúnaði.

Síðustu fréttir af halla ársins 2001 eru að hann sé yfir 300 millj. kr. Í fjárlögum er gert ráð fyrir halla upp á 147 millj. á þessu ári og eru kurl auðvitað ekki komin til grafar. Eigið fé frá 1995, árið sem hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason tók við ráðherradómi, hefur lækkað um fjórðung, eiginfjárhlutfallið farið úr 35 í 20%.

Afnotagjöld hafa ekki hækkað til samræmis við verðlag. Ráðherra hefur heimtað hagræðingu og henni verið hrint í framkvæmd. Hann hefur enn fremur att Ríkisútvarpinu út á markað auglýsinga og kostunar. Þar hefur Ríkisútvarpið staðið sig vel en ræður ekki við það er hið fræga góðæri fellur og þess vegna lækka tekjur þess verulega án þess að annað komi á móti.

Menn eru, í sambandi við heimsmeistarakeppnina, að tala um á milli 15 og 25 millj. kr., mismunandi eftir því hvernig samningar nást og hvernig ástandið verður á vordögum hjá þýska fyrirtækinu Prisma, hjá Ríkisútvarpinu og hugsanlega Sýn. Minna má á, af því að hæstv. ráðherra slær af sér allri ábyrgð, að hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason flutti hér sjálfur frv. um niðurlagningu Menningarsjóðs útvarpsstöðva sem, samkvæmt skýrslu nefndar sem hann bjó sjálfur til og skilaði af sér í nóvember á síðasta ári, jók álögur á Ríkisútvarpið sem nemur 26 millj. kr. Ef hæstv. menntmrh. hefði í kjölfar þess frv. gert ráðstafanir til að bæta Ríkisútvarpinu þennan tekjumissi, þ.e. þennan gjaldaauka sem rennur til Sinfóníuhljómsveitarinnar, þá værum við kannski ekki að tala um þetta mál í dag.