Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 10:50:50 (3516)

2002-01-24 10:50:50# 127. lþ. 60.94 fundur 267#B heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[10:50]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Með fullri virðingu fyrir hinu háa Alþingi þá er það að mínu mati ekki vettvangurinn til að ræða hugsanlegar breytingar á dagskrá Ríkisútvarpsins. Miklu fremur hefði ég viljað taka hér þátt í umræðu um framtíðarskipan og hlutverk Ríkisútvarpsins. Á að breyta því í hlutafélag, sameignarfélag, setja það á fjárlög og afnema afnotagjöldin? Útvarpsráð á ekki, frekar en Alþingi, að hringla með dagskrána. Hlutverk þess er stefnumótun fyrirtækisins og rekstur þess.

Mín skoðun er sú að núverandi fyrirkomulag ógni tilveru stofnunarinnar og hún geti ekki, ef fram heldur sem horfir, sinnt þeim kröfum sem gerðar eru til hennar af hálfu þjóðarinnar. Líklegasta leiðin til að koma til móts við þessar kröfur er að stokka upp í stjórnkerfi stofnunarinnar og breyta því í hlutafélag svo að Ríkisútvarpið fái að blómstra áfram á nýrri öld.

Fleiri leiðir er að sjálfsögðu einnig rétt að skoða með það að markmiði að þær styrki Ríkisútvarpið. Til að breyta stöðnuðu kerfi RÚV þarf á hinn bóginn víðtækan pólitískan vilja en ekki gamla, lúna frasa um að þeir sem vilji breytingar á Ríkisútvarpinu hafi horn í síðu þess. Það er lítil birta yfir slíkum málflutningi á þessum vettvangi sem öðrum.

Vegna hins gamla úr sér gengna fyrirkomulags erum við að ræða um hvort Ríkisútvarpið eigi að senda út heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem fer fram í Suður-Kóreu og Japan í sumar. Flestir Íslendingar hafa skoðun á þessu þótt þær skoðanir kunni að vera mismunandi. Sjálf var ég grautfúl yfir því, herra forseti, að sá möguleiki væri fyrir hendi að við fengjum ekki að njóta þessa mikla menningarlega viðburðar sem heimsmeistarakeppnin í fótbolta er. Þetta er eitt allra skemmtilegasta sjónvarpsefni sem maður kemst í tæri við. Það er ósköp eðlilegt að menn spyrji af hverju Ríkisútvarpið sýni ekki keppnina þar sem um skylduáskrift að miðlinum er að ræða. Á hinn bóginn geta gildar ástæður verið fyrir því að sýna ekki fótboltann sem við verðum einfaldlega að kyngja, en þær eru fjárhagslegar. Þó vonast ég til að Ríkisútvarpið og ágætir starfsmenn þess nái að leysa þetta mál á sem farsælastan hátt og þá hugsanlega í samstarfi við önnur fyrirtæki. Gangi það ekki upp þá er það ósk mín og von að aðrir stórir aðilar á sjónvarpsmarkaðnum nái að sinna þessari frábæru fótboltakeppni og gerist um leið bjargvættir íslenskra íþróttaunnenda.