Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 10:53:15 (3517)

2002-01-24 10:53:15# 127. lþ. 60.94 fundur 267#B heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[10:53]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Sjálfstfl. hefur haft með stjórn Ríkisútvarpsins að gera sl. 12 ár. Niðurstaðan er þessi sem hv. síðasti ræðumaður lýsti svo vel, þ.e. þetta sjónvarp er í herkví. Það er merkilegt að nú þegar hæstv. menntmrh. er að kveðja og gerast forustumaður minni hluta borgarstjórnar skuli hann skilja við stofnunina eins og hér um ræðir.

Hann hefur talað um áform sín um að leggja af óvinsælt afnotakerfi. Það hefur ekki gerst. Hann hefur talað um mikilvægi þess að styrkja svæðisútvarp á landinu. Þar hefur ekkert gerst. Núna síðast datt honum í hug að gera það með því að leggja niður Rás 2. Hann hefur talað um það að efla fjármál Ríkisútvarpsins. Þar hefur ekki gerst. Niðurstaðan er sú, eins og við blasir, að Ríkisútvarpið hefur ekki bolmagn til að afla fjármuna til að sýna heimssögulega viðburði á borð við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu.

Hæstv. ráðherra kemur hér og segist ekki skipta sér af einstökum dagskrárliðum. Það er enginn að biðja hann um það. Það er hins vegar verið að biðja hann að fara fram á það og krefjast þess að hann komi málum þannig fyrir í fjármálalegu tilliti að þessi stofnun geti sýnt 120 klst. af einu vinsælasta sjónvarpsefni sem sögur fara af sem kostar 15 millj. kr.

Ég spyr líka, hæstv. forseti: Er þess að vænta og trúa menn því hér í þessum sal að mörg lönd í Evrópu sýni ekki frá þessari keppni? Nefni menn mér eitt land. Það verður hins vegar heimsfrétt ef Ísland hefur ekki efni á að sýna þetta alvinsælasta sjónvarpsefni, þennan heimssögulega viðburð, í beinni útsendingu. Það verður merkilegur bautasteinn sem hæstv. menntmrh. tekur með sér úr þessum sal í minni hluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Ég óska honum til hamingju með það.