Heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 10:55:21 (3518)

2002-01-24 10:55:21# 127. lþ. 60.94 fundur 267#B heimsmeistaramótið í knattspyrnu og þjónusta Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[10:55]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það að í raun er sorglegt að þurfa að tala um einstök dagskrármál Ríkisútvarpsins hér á hinu háa Alþingi. Auðvitað er það afleiðing af því að ríkisstjórnin hefur staðið illa að rekstri Ríkisútvarpsins undanfarin ár. Ég held að öllum sé það ljóst. Ég held að við séum öll sammála um að það sé nauðsynlegt að allir landsmenn geti fylgst með heimsviðburðum. Það gildir um heimsmeistaramót í knattspyrnu auðvitað ásamt mörgu öðru. Það á að vera hlutverk Ríkisútvarpsins að þjóna landsmönnum með beinar útsendingar af þessu tagi og til þess þarf að standa við bakið á þessari stofnun.

Kostnaðarauki við beinar útsendingar hefur margfaldast, ekki einungis á þessu sviði. Kostnaðurinn hefur tekið stökk frá árinu 1998 og þar af leiðandi er ljóst að einkastöðvar hafa ekki bolmagn til að sjá um útsendingar af þessu tagi. Hæstv. menntmrh. kom inn á að það mætti hugsa sér samvinnu milli stöðva. Sú samvinna hefur verið reynd og hefur gefist illa, að því er ég best veit. Við ætlumst til þess að Ríkisútvarpið geti innt þessa þjónustu af hendi við alla landsmenn.

Ríkisútvarpið er í fjársvelti, afnotagjöld hafa ekki fylgt verðlagsbreytingum og mikill kostnaðarauki er við dagskrárgerð af öllu tagi.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt megináherslu á það á undanförnum árum, gert um það tillögur í tengslum við fjárlög, að auka framlög til Ríkisútvarpsins til að styrkja það. Nú er í tísku hjá hæstv. ríkisstjórn að veita ráðherrum ríkisstjórnarinnar svokallaða potta til að auka veldi þeirra. Ég vildi spyrja hæstv. menntmrh. varðandi þessa umræðu hér hvort þetta pottakerfi stjórnarliða geti ekki gagnast í þessu samhengi, til þess að leysa bráðavanda. En auðvitað þarf að leysa vanda Ríkisútvarpsins á heildstæðan hátt sem allra fyrst.