Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:14:53 (3525)

2002-01-24 11:14:53# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:14]

Frsm. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka undir það að þegar þessu máli var frestað í aðdraganda jólaleyfis þingmanna þá taldi ég víst að menn hefðu tekið ákvörðun um að taka málið inn í nefndina á nýjan leik. Eins og hér hefur komið fram er verulegur ágreiningur um málið og ég held að það sé almennt viðhorf, a.m.k. hjá minni hlutanum að þetta mál hefði þurft að vinna miklu betur.

[11:15]

Sem dæmi má nefna að í þeirri snubbóttu röksemdafærslu fyrir nauðsyn þess að þetta mál sé lagt fram er einungis vitnað til tveggja atriða. Það er nauðsynlegt að rifja upp að frv. lýtur fyrst og fremst að því að auka valdheimildir Flugmálastjórnar til að grípa til aðgerða ef þeim þyki eitthvað óæskilegt. Frv. lýtur fyrst og fremst að því að auka valdheimildir Flugmálastjórnar. Röksemdafærslan fyrir þessu, sem sett er fram í athugasemdum við lagafrv. þetta, er tvenns konar. Í fyrsta lagi eru þetta viðbrögð við hinni miklu umræðu um flugmál í kjölfar Skerjafjarðarslyssins svokallaða. Að mínu mati eru þetta mjög krampakennd viðbrögð. Þau eru hins vegar í samræmi við viðbrögð ráðuneytisins almennt í kjölfar þessarar umræðu. Þetta eru einhvers konar skyndiviðbrögð til þess að bæta úr einhverju sem þeir vita ekki almennilega hvað er. Röksemdirnar fyrir þessu eru að Flugmálastjórn hafi í nokkrum tilvikum verið gerð afturreka fyrir dómstólum þar sem hún hefur ekki verið talin hafa þær valdheimildir sem nauðsynlegar eru að mati ráðuneytisins.

Sé málið skoðað og farið ofan í það kemur í ljós að hér er um þrjá dóma að ræða. Reyndar er það svo að aldrei hefur reynt á þessar refsiheimildir fyrir Hæstarétti. Hér er hins vegar um þrjá dóma að ræða og ég tel að ég muni það rétt að fyrsti dómurinn var þess eðlis að ríkissaksóknari lét málið niður falla sökum sönnunarskorts. Það mál laut að hleðslumálum. Það var fyrsta málið. Það tengdist ekkert valdheimildum Flugmálastjórnar á nokkurn hátt heldur einungis því að Flugmálastjórn kærði tiltekinn aðila fyrir ofhleðslu en ríkissaksóknari lét málið niður falla vegna þess að hann taldi ekki um nægar sannanir að ræða.

Seinni tvö málin lúta síðan að tilteknum atriðum þar sem flugmenn stunduðu lágflug og snertilendingar á vatni. Niðurstaða færustu sérfræðinga, m.a. eðlisfræðinga og í yfirlýsingum frá NASA, var sú að þetta væri ekki mjög hættulegt. Nú ætla ég ekki að leggja á þetta dóm en niðurstaða dómstóla var sú að þeir tóku mark á NASA og þeim skýringum sem þaðan komu. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og gef mig ekki út fyrir það. Þetta var hins vegar niðurstaðan sem dómstólar komust að.

Þessi röksemdafærsla gengur ekki, að nota þessi mál til þess að ganga hér harkalega fram og veita Flugmálastjórn valdheimildir langt umfram það sem eðlilegt má teljast, að mínu mati og minni hlutans sem stendur að þessu áliti. Ásamt þeim sem hér stendur eru aðilar að þessu minnihlutaáliti hv. þm. Kristján L. Möller og Jón Bjarnason.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn leggst harðlega gegn afgreiðslu þessa frumvarps að svo komnu máli þar sem málið hefur lítið verið rætt og er lítt undirbúið. Meginhugmynd frumvarpsins er að auka til muna valdheimildir Flugmálastjórnar án þess að mikið liggi fyrir um hvernig þær verða framkvæmdar eða hvort stofnunin sé á nokkurn hátt í stakk búin til að taka við og fara með slíkar valdheimildir. Þá hefur komið fram í umsögnum um málið og hjá gestum sem hafa komið á fund samgöngunefndar að eins og staðan sé í samskiptum Flugmálastjórnar og ýmissa aðila sem starfa við flug hér á landi sé traust þeirra á stofnuninni lítið sem ekkert.

Í frumvarpinu er lagt til að valdheimildir og þvingunarúrræði Flugmálastjórnar Íslands verði auknar verulega í ýmsum veigamiklum þáttum, og ætla ég að nefna hér nokkur dæmi:

1. Flugmálastjórn er veitt heimild til að áskilja að fyrirsvarsmenn framleiðenda, viðhaldsaðila og flugrekstraraðila standist sérstaka prófraun. Flugmálastjórn veitir þeim viðurkenningu sem standast prófraunina og getur hún síðan hvenær sem er fellt viðurkenningu sína úr gildi.

2. Flugmálastjórn er veitt vald til að svipta leyfishafa samkvæmt lögunum leyfi til bráðabirgða hvenær sem þeir gerast brotlegir við lög, reglur eða fyrirmæli Flugmálastjórnar sem um starfsemina gilda.

3. Flugmálastjórn getur svipt eigendur eða umráðamenn flugvalla starfsleyfi ef þeir fullnægja ekki þeim skilyrðum sem sett eru.

4. Flugmálastjórn er falið að gera flugverndaráætlun fyrir landið allt og skal hún jafnframt samþykkja flugverndar\-áætlanir sem eftirlitsskyldir aðilar gera. Ekki er annað að sjá en að með þessu geti Flugmálastjórn lagt nokkrar kvaðir á eftirlitsskylda aðila.

5. Flugmálastjórn er veitt heimild til að leggja dagsektir á eftirlitsskylda aðila ef þeir verða ekki við kröfum stofnunarinnar eða veita ekki umbeðnar upplýsingar. Geta dagsektir numið frá 10.000 kr. upp í allt að 1 millj. kr.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að ein meginrót þess að það er lagt fram sé að í kjölfar flugslyssins í Skerjafirði 7. ágúst 2000 hafi komið í ljós verulegir brestir í skipulagi flugrekstraraðila vélarinnar sem fórst og jafnframt að Flugmálastjórn teldi sig ekki hafa yfir nægum úrræðum að ráða til að eftirlit stofnunarinnar bæri tilætlaðan árangur. Komið hefur fram í umfjöllun nefndarinnar, sem ekki var mikil, að frumvarpið og hugmyndir sem þar er að finna séu krampakennd viðbrögð stjórnvalda við þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á flugmálayfirvöld og frammistöðu þeirra í kjölfar umrædds slyss.

Enn fremur hefur komið skýrt fram að ef takast á að skapa traust milli Flugmálastjórnar og margra hópa sem starfa að flugmálum sé nauðsynlegt að skipta stofnuninni upp í flugöryggissvið annars vegar og flugþjónustusvið hins vegar. Það getur ekki gengið að stofnun sem m.a. hefur það hlutverk að greiða götu þeirra sem starfa að flugmálum skuli einnig hafa eftirlit með öryggismálum sömu aðila. Þá er á það bent að sami aðili fari með rekstur og viðhald flugvalla, fjalli um öryggismál þeirra og veiti þeim leyfi fyrir starfseminni. Þetta á einnig við um rekstur aðila og útgáfu leyfisskírteina. Hagsmunaárekstrarnir eru of margir. Afleiðing þessa fyrirkomulags er sú að stofnunin er rúin trausti margra sem starfa í fluginu.

Samgöngunefnd hafa borist fjölmargar umsagnir um málið. Í þeim er að finna mjög alvarlegar athugasemdir við störf og starfshætti Flugmálastjórnar Íslands. Minni hlutinn telur nauðsynlegt að fá ítarlegri upplýsingar um þessar athugasemdir og kanna réttmæti þeirra til hlítar áður en Flugmálastjórn verða veittar þær stórauknu valdheimildir og þvingunarúrræði sem í frumvarpinu felast. Slíkt gæti leitt til aukinna hagsmunaárekstra, en af þeim er nóg ef marka má umræddar athugasemdir og er slíkt ekki til þess fallið að auka öryggi í flugsamgöngum hér á landi. Minni hlutinn er tilbúinn til þess að taka þátt í þeirri vinnu sem nauðsynleg er til þess að koma málum til betri vegar. Til þess að af því geti orðið er nauðsynlegt að skipta Flugmálastjórn upp. Á meðan stofnunin fer með allt vald, rannsakar, framkvæmir, dæmir og gefur út leyfi er hættan á hagsmunaárekstrum of mikil til þess að friður geti skapast í einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu leggst minni hlutinn gegn samþykkt frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir meginröksemdir minni hlutans í þessu máli. Megináhersla okkar er á að þetta mál þurfi að vinna mun betur. Það er kannski ekki ástæða til að fjalla um þá umræðu og þau skrif og að mörgu leyti fjölmiðlafár sem hefur blásið um samfélagið frá því að umræðan um flugöryggi og Flugmálastjórn hófst fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári eða svo. Ég tel hins vegar að til að tryggja að við náum því markmiði að traust ríki innan þessa geira, að yfirvöld njóti þess trausts sem nauðsynlegt er að þau hafi, sé ein meginforsenda þess sú að sátt takist um hvernig þessum málum verði fyrir komið.

Ég held að það þjóni engum tilgangi, virðulegi forseti, að keyra hér fram með offorsi og frekju málið sem hér um ræðir. Það er að mínu mati á engan hátt líklegt til að bæta úr þeim vandamálum sem nú ríkja á þessu sviði.