Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:25:54 (3526)

2002-01-24 11:25:54# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:25]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir. Því er fyrst og fremst ætlað að kveða nánar á um og skýra ábyrgð einstakra aðila sem koma að þeim málum, hvernig eftirliti skuli háttað. Í því eru ákvæði um rekstrarstöðvun einstakra aðila sem koma að flugmálum og annað er varðar öryggis- og rekstrarmál.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði grein fyrir nál. minni hluta samgn. í þessu máli og kom þar inn á flest þau atriði sem efnislegur ágreiningur er um. Það sem ég vil gera að umtalsefni, herra forseti, eru hins vegar vinnubrögðin í hv. samgn. varðandi þetta mál. Ég tel þau ekki hafa verið með þeim hætti að tryggja góðan framgang málsins. Ég tel að ekki hafi verið farið gegnum öll þau efnisatriði sem fara hefði þurft í gegnum og taka afstöðu til áður en þetta mál var afgreitt til 2. umr.

Þetta er veigamikið mál og snýr að meginhluta að öryggis- og eftirlitsmálum í flugi. Einmitt nú eru álíka mál til umræðu og meðferðar í flestum löndum heims. Hv. formaður samgn. minntist á að frv. væri m.a. til komið vegna hinna hörmulegu hryðjuverka í Bandaríkjunum þar sem flugvél var notuð sem stríðstól. Það er ein ástæðan en því fer fjarri að það sé eina ástæðan fyrir því sem við fjöllum hér um varðandi flugöryggismál. Flugöryggismál eru náttúrlega í stöðugri endurskoðun og menn leitast eftir að hafa þau í sem bestu horfi miðað við aðstæður og möguleika.

Við í samgn. fengum, eins og hér hefur komið fram, margar umsagnir um frv. og það verður að segjast, herra forseti, að í mörgum þeirra kom fram mikill efi gagnvart því að færa svo einhliða jafnmikið vald á hendi Flugmálastjórnar, vald til að setja kröfur, veita ráðgjöf, leiðbeiningar og þjónustu á þessu sviði og annast jafnframt eftirlit og beita bæði tímabundnum og langtíma viðurlögum og allt upp í sviptingu á rekstrarleyfum.

[11:30]

Í mörgum þessum umsögnum komu fram miklar efasemdir um að þetta gæti gerst með þeim hætti sem hér er lagt til þannig að trúverðugt væri. Ég tel, herra forseti, að nefndin sem heild hafi ekki fjallað nægilega um þær ábendingar og atriði sem þarna komu fram áður en málið var afgreitt.

Fjölmargir fulltrúar þessara aðila og sérfræðingar komu líka fyrir nefndina en nefndin sem slík hélt engan sjálfstæðan fund þar sem farið var yfir þau atriði sem höfðu komið fram, bæði á fundum með gestum og þeim athugasemdum sem fram komu eftir að þeirri umfjöllun var lokið. Þetta tel ég ekki fullnægjandi vinnubrögð. Þetta hefði átt að vinnast öðruvísi. Það hef ég gagnrýnt og gagnrýni enn. Öryggismál í flugi eru svo mikilvæg mál og í sjálfu sér ekki flokkspólitísk mál sem meiri hlutinn hefur neina ástæðu til að keyra fram með þeim hætti, þ.e. ef verið er að sækja afsökun í það. Því fer fjarri. Í flestum málum vinnur samgn. sem heild þó að meiningarmunur geti verið í lokaafgreiðslu.

Þess vegna ítreka ég það sem ég hef áður sagt að ég tel að þetta mál eigi að fara aftur til samgn., að nefndin sem heild eigi að fara sameiginlega í gegnum þær ábendingar og athugasemdir sem fjölmargir aðilar hafa komið með til nefndarinnar. Þeir hafa lýst miklum efa um að þetta sem hér er verið að leggja til sé allt á hinn besta veg. Margt er til bóta að sjálfsögðu en sumt ekki og sumt hefði þurft að fara betur í og skýrast.

Herra forseti. Það er því einlæg tillaga mín og beiðni til hv. formanns samgn. að hann endurskoði afstöðu sína og taki málið aftur upp innan samgn. þar sem farið verði í gegnum þau atriði sem hérna hefur verið fundið að. Mikið er í húfi. Umræðan þessa dagana um flugöryggismál t.d. sem ég nefndi áðan, herra forseti, og lýtur að heilbrigðislögum og reglum sem lúta að heilbrigði og flughæfni flugstjóra er líka hluti af flugöryggismálum og þar einmitt virðast mál standa þannig að lög og reglur innan lands og erlendis eru ekki samhljóða. Hvenær lætur maður öryggið njóta vafans ef ekki er ástæða til að skoða einmitt í þessu tilliti að taka á þeim vanköntum sem þar eru uppi og fella það að þeirri lagavinnu sem verið er að stefna að að afgreiða frá Alþingi.

Herra forseti. Ég ítreka aftur að allt of mikið er í húfi, þ.e. öryggismál í flugi þjóðarinnar, til þess að það sé unnið og afgreitt á þennan hátt úr samgn. og lagt fyrir Alþingi eins og ætlunin er að láta það fara í gegn.