Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:34:43 (3527)

2002-01-24 11:34:43# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta GHall
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:34]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Hér hafa fallið nokkur orð í þá veru að betur hefði mátt að þessu máli standa en raun ber vitni að áliti minni hlutans. Þar stangast á skoðanir okkar eins og ég gat um áðan og er ekkert við því að segja í sjálfu sér. Hins vegar er athyglisvert þegar vitnað er til umsagna og talað um að margar þeirra hafi verið þannig úr garði gerðar að eðlilegt væri að taka málið aftur inn í nefndina og halda umræðunni áfram. Vil ég vitna til þess að mikið var ritað þar um samskipti við Flugmálastjórn og menn voru að vitna mjög til hins alvarlega slyss sem varð í Skerjafirði.

Í mörgum umsögnum var sá atburður meginmálið. Hins vegar var ákaflega lítið fjallað um það erindi sem við lögðum fyrir viðkomandi aðila og gekk út á að fá álit manna á því lagafrv. sem hér liggur til afgreiðslu Alþingis. Ég vil vitna til einnar umsagnar og skiptir ekki litlu máli hvaða álit sá hópur hefur á málinu, þ.e. Félag íslenskra atvinnuflugmanna. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stjórn Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og flugmenn almennt taka að sjálfsögðu undir sérhverja viðleitni sem miðlar að auknu flugöryggi. Það er ljóst af almennu athugasemdunum með þessu frumvarpi að tilefnið að gerð þess er flugöryggi. Almennu öryggi í flugi á að ná fram m.a. með því, eins og segir í athugasemdunum, að auka þvingunarúrræði og eftirlitsvald Flugmálastjórnar. Það er hér sem stjórn Félags íslenskra atvinnuflugmanna vill gera alvarlegar athugasemdir við.``

Og svo kemur textinn:

,,Það verður að segjast eins og er að nú þegar hefur traust stjórnar FÍA og fjölda flugmanna til Flugmálastjórnar Íslands (FMS) minnkað svo mikið að ef eigi verður úr því bætt með einhverjum hætti kann það að leiða til algers trúnaðarbrests. Stofnun sem hefur þann starfa að kanna og hafa eftirlit með hæfi flugmanna og flugrekenda til síns starfa þarf sjálf að sýna og sanna hæfni sína til þess. Hún þarf að hafa yfir að ráða starfsmönnum með sérþekkingu á flugi sem sönnuð er með námi og prófum. Og starfsmönnum hennar þarf að vera ljóst að hlutverk þeirra er ekki aðeins að hafa eftirlit með höndum heldur einnig það hlutverk að greiða götu manna eftir bestu getu. Með því móti skapast traust sem aftur leiðir til aukins flugöryggis. Þá eru dæmi um að mikilvæg staða hjá FMS sem auglýst skyldi til umsóknar ... hafi ekki verið auglýst, en skipað í hana að geðþótta. Þetta er ekki til þess fallið að auka traust og þar með flugöryggi.

Vænlegasta einstaka leiðin til þess að auka almennt flugöryggi er sú að skapa eðlilegt faglegt traust milli FMS og þeirra aðila sem fást við flugrekstur.

Með vísan til framanritaðs og í trausti þess að sú staða mála sem þar er lýst verði athuguð nákvæmlega og reynt að bæta úr, sér stjórn FÍA ekki ástæðu til að fara sérstaklega út í sérhverja grein frumvarpsins með einni undantekningu.``

Með einni undantekningu sér Félag íslenskra atvinnuflugmanna ekki ástæðu til að fjalla um málið, þ.e. aðeins um aldursmörk sem eru í lögunum, og við erum að fara sömu leið og aðrir. Í mörgum öðrum umsögnum sem bárust hv. samgn. er verið að fjalla um allt aðra hluti en þá sem við biðjum um, þ.e. umsögn um frv. sjálft.

Síðan koma hv. þm. minni hluta samgn. og segja að taka þurfi málið inn aftur vegna þess að það hafi ekki fengið nógu mikla umræðu og nógu góðan undirbúning. Það er skoðun út af fyrir sig og ber ekki að vanmeta það í sjálfu sér. Þegar hins vegar til þessa máls er litið og alvarleika þess þá erum við ekki að fjalla um móralska hlið eins eða annars vinnustaðar. Það er mál sem Alþingi tekur ekki á. Það er stofnunin sjálf og ráðuneytið sem fjalla um samskiptamál. Við setjum ekki í lög hvernig einstakar persónur eða stjórnendur ,,reagera`` í sínu starfi. Þess vegna, herra forseti, endurtek ég það sem ég sagði áðan, að ég sé ekki ástæðu til að kalla þetta mál inn í nefndina aftur og legg því til að það fái eðlilega afgreiðslu í þingsal.