Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:45:53 (3531)

2002-01-24 11:45:53# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:45]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson minnist þess ekki að hann hafi gert hér að meginmáli slysið sem varð í Skerjafirðinum. Hann minnist þess ekki heldur að þau atriði sem hafa komið upp varðandi athugasemdir við frv. hafi verið tekin til greina. Ég vitna aftur í lokaorð bréfs Félags íslenskra atvinnuflugmanna þar sem þeir hafa nokkuð skynsamlega haldið á sínu máli og telja að það sé stofnunarinnar sjálfrar að taka til í sínum ranni vegna samskipta við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og fjölmarga aðra aðila.

Ég verð að segja það, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, en til hans tala ég nú, að mér finnst að menn hafi gert heldur mikið úr því sem er eiginlega neðanmáls eða mál sem ekki falla beint að óskum okkar um athugasemdir við einstakar greinar frv. Ég endurtek því, herra forseti, það sem ég sagði áðan. Ég tel að það sé ekki hlutverk okkar að fara ofan í hinar mórölsku hliðar samskiptamála þessara aðila. Það er rétt sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom inn á að við setjum þessari stofnun lög og reglur til að vinna eftir. Það er það sem við erum að gera núna.