Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:47:31 (3532)

2002-01-24 11:47:31# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:47]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. formaður samgn. segi kannski meira í máli sínu en þarf að ítreka, að af hálfu meiri hlutans hafi þessar mórölsku hliðar einmitt ráðið því að málið yrði keyrt út úr nefndinni án þess að hún fjallaði í rauninni neitt um það. Nefndin sem slík fjallaði nánast ekkert um þetta mál. Þar voru allir fundir bókaðir með gestum. Það var mjög gott að fá alla þessa gesti til að upplýsa nefndina og svara spurningum hennar en nefndin sem slík fjallaði ekkert um málið eftir þessar heimsóknir í heild sinni, og minni hlutinn vissi ekki neitt fyrr en hann stóð frammi fyrir einhverju meirihlutaáliti af hálfu meiri hluta nefndarinnar sem tilkynnti að með því væri málið komið út úr nefnd. Ágreiningurinn var því ekki af okkar hálfu, þessi móralska hlið málsins, þó að aldrei skyldi vanmeta hann, heldur voru vinnubrögð nefndarinnar ótrúverðug í svona mikilvægu máli. Við gátum sjálfsagt orðið sammála um ýmis atriði og ýmsar þær breytingar sem hér eru lagðar til eru til bóta en málið hlaut enga meðhöndlun sem slíkt í nefndinni og þetta er allt of stórt mál sem lýtur að flugöryggismálum til þess að það sé að ástæðulausu, að mínu mati, afgreitt með þessum hætti út úr nefnd.

Þetta á ekki að vera neitt pólitískt ágreiningsmál. Það á ekki að vera metnaðarmál formanns samgn. eða hæstv. samgrh. að koma þessu máli í gegn. Það á að vera metnaðarmál að Alþingi geti staðið saman og að samvinna sé um svona mál.