Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 11:50:46 (3534)

2002-01-24 11:50:46# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[11:50]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það kemur þá bara greinilega fram að okkur greinir verulega á í ábyrgum vinnubrögðum, og hvernig þau skuli vera við lagasetningar frá Alþingi og í störfum nefndar, þegar svo veigamikið mál eins og hér er um að ræða er afgreitt út úr nefnd í einhverjum sérstökum flýti og litið svo á að það sé nóg að meiri hlutinn hafi fjallað um það og komist að þessari niðurstöðu, og minni hlutanum komi það ekkert við og ekki þurfi að fjalla um þetta mál í heild sinni á vegum nefndarinnar. Þarna greinir okkur einfaldlega á í vinnubrögðum og það má vel vera, herra forseti, að einmitt svona vinnubrögð séu kannski talandi tákn og lýsandi fyrir þann flumbrugang og vandræðagang sem er því miður í flugöryggismálum og flugumferðarmálum hér á landi.

Ég ítreka, herra forseti, og legg aftur til að hv. formaður samgn. sjái sóma nefndarinnar í því að þetta mál fari aftur í nefnd þar sem við getum þá fjallað um það aftur og tekið efnislega umræðu um þau atriði og ábendingar sem bæði minni hlutinn og gestir vildu koma á framfæri við lokaafgreiðslu frv.