Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:10:06 (3539)

2002-01-24 12:10:06# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:10]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég kalla ómálefnalega gagnrýni er þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talar um að breytingar á lögum sem varða flugöryggismál, flugverndarmál, flugverndaráætlun og fleiri séu krampakennd viðbrögð stjórnvalda við tilvikum eins og gerðust 11. september. Það kalla ég ekki málefnalegan málflutning og það var það sem ég átti ekki síst við.

Ef hv. þm. hefði undirbúið sig undir þessa umfjöllun í þinginu eins og hann lætur í veðri vaka hefði væntanlega mátt búast við að fram kæmu brtt. í þá veru sem hann talaði um að þyrfti að gera um aðskilnað vegna framkvæmdar ýmissa mála. En hvar eru þær brtt.? Þær hafa ekki litið dagsins ljós, ekki einu sinni í ræðum, hvað þá að þær séu lagðar fram eða gerð grein fyrir þeim í nefndinni, svo ég viti til. Gagnrýni er nauðsynleg og við erum til þess á Alþingi að fjalla um mál, taka afstöðu til brtt. við stjfrv. eins og í þessu tilviki, en þá verða þær brtt. að koma fram og þær hafa ekki komið fram hjá stjórnarandstöðunni, hvorki Vinstri grænum sem eiga fulltrúa í samgn. né fulltrúa Samfylkingarinnar sem þar situr þannig að við hljótum þá að sjá frumvörp sem fjalla um þessi málefni sem hv. þm. gerir að svo miklu atriði í umræðunni.