Loftferðir

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 12:19:50 (3545)

2002-01-24 12:19:50# 127. lþ. 60.2 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó eftir því í seinni ræðu hæstv. samgrh. þar sem rætt var um flugleiðsögugjaldið eða flugmiðaskattinn sem svo hefur verið kallaður, að hann gerði ráð fyrir --- reyndar er gert ráð fyrir því í 12. gr. --- heimild um að þetta verði fellt niður.

Ég sjálfur ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar flutti strax tillögu um að þetta yrði fellt niður þannig að ég fagna þessu. Hins vegar tók ég eftir því að hæstv. samgrh. sagði hér áðan að hann gerði ráð fyrir því að þetta mundi virka aftur fyrir sig.

Herra forseti. Þannig er að lögin eru í gildi og flugmiðaskatturinn er í gildi núna og flugrekendur eiga að greiða þennan flugmiðaskatt núna samkvæmt lögunum. Í þessu frv. er hins vegar ekki gert ráð fyrir því sem var í frv. sem ég og nokkrir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar fluttum, að þetta yrði endurgreitt þeim flugrekendum sem það hafa greitt.

En ég fagna því sem hæstv. samgrh. sagði áðan, þ.e. að hann gerði ráð fyrir að þetta yrði afturvirkt. Því vil ég, herra forseti, spyrja hæstv. samgrh. út í þetta mál frekar. Það verða þá leiðbeinandi skilaboð fyrir okkur í samgn. áður en þetta mál kemur til 3. umr. vegna þess að þetta verður að koma þar sem brtt. Hvaða ákvæði eigum við að setja þarna inn? Getum við ekki sameinast um að flugrekendur hafi ekki haft efni á því að greiða þennan flugmiðaskatt? Getum við ekki sameinast um að flugrekendum verði endurgreiddur þessi skattur frá upphafi? Hvaða dagsetningar hefur hæstv. samgrh. í huga þegar hann segir að hann geri ráð fyrir að þegar flugleiðsögugjaldið verður fellt niður þá virki það aftur fyrir sig?

Hér vantar að mínu mati lagaheimild fyrir því hvaða dagsetningar eiga að vera. Út í þetta vildi ég spyrja hæstv. samgrh.