Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:10:01 (3555)

2002-01-24 14:10:01# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki stórvægilegt tilefni til en ég vil í fyrsta lagi taka skýrar til orða varðandi almenningssamgöngurnar. Ég geri engar athugasemdir við ágæta umfjöllun um þær hér á bls. 36 og 37 í skýrslu stýrihópsins. Ég var fremur að lýsa vonbrigðum með þróun undangenginna ára og stöðu mála hvað almenningssamgöngur í landinu varðar. Almenningssamgöngur hér eru auðvitað allt of veikar, óskipulagðar og litlar. Það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Einkabílaeign er að sönnu gríðarleg. Við erum þar eins og víðar nálægt því að eiga heimsmet. En við vitum samt að það er mikil þörf fyrir almenningssamgöngur. Þær gætu m.a. dregið úr þessari gríðarlegu einkabílaeign, það væri jákvætt í umhverfislegu tilliti.

Ekki eiga allir bíl. Margir þurfa að reiða sig á almenningssamgöngur og kostnaðurinn er gríðarlegur ef um er að ræða aldrað fólk sem býr fyrir norðan eða austur á landi og þarf vegna lækninga á samgöngum að halda hingað til höfuðborgarsvæðisins. Menn ættu aðeins að hugleiða hver kostnaðurinn er, kannski á milli 20 og 30 þús. kr. hver ferð bara fargjaldið.

Í frv. eru ágætar hugleiðingar um þessi mál en staðan er eins og hún er. Það þarf mikið átak ef við eigum að sjá fyrir okkur að staðan breytist í grundvallaratriðum á komandi árum. Meira að segja hér á höfuðborgarsvæðinu er að mínu mati langt frá því að almenningssamgöngur séu í fullnægjandi horfi, t.d. allt of stutt síðan menn fóru að líta á allt þetta svæði sem eina heild í því.

Varðandi umhverfismálin, orkunýtingu og strandsiglingar þá stend ég við að ég er þeirrar skoðunar að öflugt strandsiglingakerfi fyrir þungaflutningana, fyrir framleiðslustarfsemina, eigi að vera við lýði. Styttri vegalengdir og samgöngur fyrir dagvöru og þarfirnar sem krafan um vaxandi hraða kallar á tengjst vegunum eða flugi, það er mér alveg ljóst. Þar með er ekki sagt að flytja þurfi allt hráefni til framleiðslustarfsemi inn á svæði og alla framleiðslu frá þeim úr heilum landshlutum eftir drekkhlöðnum vegum sem engan veginn hafa burði til að taka við þeim flutningum.