Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:23:16 (3561)

2002-01-24 14:23:16# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist niðurstaðan af þessum orðaskiptum okkar vera sú að við séum algjörlega sammála, ég og hv. þm. Ég get tekið undir hvert orð sem hann sagði hér í seinna andsvari sínu. Ég held að viðfangsefnið sé nákvæmlega þetta, og manni finnst það náttúrlega bara almenn heilbrigð skynsemi að langskynsamlegasta og -hagkvæmasta fyrirkomulagið sé að reyna að greina á milli eftir eðli og þörfum flutninganna, hvort um er að ræða léttavöru, dagvöru og annað slíkt sem þörfin kallar á að berist hratt á milli, eða þungaflutninga, framleiðsluiðnað, hráefni til framleiðslu og aftur afurðir frá framleiðslu sem oft er mæld í þúsundum og tugþúsundum tonna. Þungaflutningarnir fara í stórum stíl orðið eftir vegum landsins af því að það er ekkert skipulagt, skilvirkt og hagkvæmt kerfi sem getur safnað þessu á ströndinni og komið því á miðlægar hafnir. Og það er það sem hefur breyst.

Vandamálið sem menn standa þar af leiðandi frammi fyrir er að ef þeir skattlegðu umferðina í samræmi við slit á vegum, og það sem eðlilegt væri, færi þungaskatturinn upp úr öllu valdi á stóru bílunum og vöruverðið mundi hækka. Það hafa menn að sjálfsögðu ekki viljað eins og ástandið er í dag því að ekki má landsbyggðin við því að fá á sig hærri flutningskostnað. Það ber mig alltaf að sömu niðurstöðunni, það sem við þurfum er samræmt og skilvirkt strandsiglingakerfi fyrir þungaflutningana.