Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 14:45:43 (3565)

2002-01-24 14:45:43# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er slæmt að eyða tímanum í að þrátta um slíkar tölur. Þarna ruglar hv. þm. saman í fjárlögum, þ.e. framlögum til vegamála. En það er rétt hjá honum að miðað við vegáætlun þá þurftum við á síðasta ári t.d. að lækka framlög í fjárlögum miðað við það sem var á vegáætlun.

En af því hv. þm. er að vísa til skýrslunnar góðu þar sem eru tillögur stýrihópsins þá eru það bensíngjöld, þungaskattur, kílómetragjald og þungaskattur/árgjald sem eru megintekjur Vegasjóðs. Það liggur alveg fyrir að tekjur af umferðinni, tekjur frá bíleigendum standa undir miklu af tekjum ríkissjóðs og þar af leiðandi tekjum Vegasjóðs þannig að ég held að ekki eigi að koma neinum á óvart sem fjallar um þetta að bíleigendur leggja mjög mikið til, bæði við rekstur og uppbyggingu samgöngukerfisins og ekki þarf að deila um það.

Ég vil að það komi skýrt fram að um samgönguáætlun verður fjallað á næstu mánuðum og ef þetta frv. sem nú er til umræðu verður að lögum fyrir vorið verður í haust lögð fram ný samgönguáætlun til 12 ára sem fjallar um alla þætti, vegi, flug, hafnir og aðra þætti sem að þessu snúa. Þá verður að taka til umræðu þessa hluti, eins og hv. þm. ýjaði hér að, (Forseti hringir) þ.e. hver hlutur notenda í almenningssamgöngum t.d. yrði að vera. Það er ekki til umfjöllunar hér þó að það séu ágætar tillögur í skýrslu stýrihópsins. Þær eru ekki þingskjal.