Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 15:48:26 (3574)

2002-01-24 15:48:26# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Ég tek af heilum hug, herra forseti, undir síðustu orð hv. þm. og ítreka að ég hef haldið því fram að hugarfarsbreytingar sé þörf. Mér sýnist íslensk stjórnvöld hafa lýst sig reiðubúin til að feta braut hinnar sjálfbæru þróunar þó svo að þau hafi kannski að hluta verið þvinguð inn á þá braut með alþjóðasamningum. En þá verða íslensk stjórnvöld að vera trúverðug í því að sannfæra þjóðina um að sjálfbær þróun skipti máli með tilliti til samgangna. Við verðum að taka það vandamál á okkar herðar hér í þessum sal að efla umræðuna og leiða alla þætti sjálfbærrar þróunar fram í dagsljósið.

Með aukinni umræðu og aukinni ábyrgð á menntun okkar allra í þessum efnum þá kemur að því að fólk skilur hvernig ábyrgð okkar er háttað í umhverfismálum. Hún byrjar heima hjá okkur sjálfum í okkar eigin hegðunarmynstri og hvergi annars staðar. Ef stjórnvöld búa til farveg fyrir þjóðina til þess að vera umhverfissinnar, til þess að hegða sér á umhverfisvænan máta þá er það hið besta mál. Nákvæmlega þannig held ég að við viljum öll sjá hlutina. Farvegurinn sem stjórnvöld mynda fyrir umhverfisvæna hegðun þjóðarinnar skiptir verulegu máli. Við erum hér til að hanna þann farveg og veita þannig umhverfismálunum brautargengi, líka í þessum málaflokki sem hér er til umfjöllunar, samgöngumálunum.