Samgönguáætlun

Fimmtudaginn 24. janúar 2002, kl. 17:10:42 (3585)

2002-01-24 17:10:42# 127. lþ. 60.4 fundur 384. mál: #A samgönguáætlun# frv., 385. mál: #A lagaákvæði er varða samgönguáætlun o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[17:10]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Af því að mér var ljóst að fjmrh. er mjög í mun að komast að með eitt af málunum sínum sem hér bíða var ég ákveðin í því að fara bara einu sinni í andsvar. Þess vegna fór ég yfir tímamörkin í fyrra svari mínu. En afskaplega kann ég því illa þegar ég hef farið afar efnislega og nokkuð faglega í gegnum það mál hæstv. samgrh. sem hann er að flytja, tekið undir sumt, og kem svo vissulega með mikilvægar ábendingar um höfuðborgarsvæðið og þörfina fyrir að litið sé til þess --- nefni það að sjálfsögðu af því að það er hæstv. samgrh. sem byrjar að tala um að borgin hafi komið í veg fyrir að búið sé að smíða þarna planfrí gatnamót, og ég hef enga þekkingu á því, að þá skuli hæstv. ráðherra koma hér í lokin og henda til mín þeirri athugasemd að það sé eins og venjulega með Samfylkinguna, hún sé að atast í ráðherranum með það að samgönguráðherrar Sjálfstfl. séu alltaf að gera eitthvað slæmt gagnvart höfuðborginni.

Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni orðað slíkt í þessum ræðustól. Ég ætlast bara til þess þegar ég fer í faglega efnislega umræðu eins og ég hef gert hér, af nauðsyn, að mér sé mætt á jafnréttisgrundvelli. Ég skila bara þessum orðum til baka, og finnst þau ekki smekkleg.