2002-01-24 17:19:03# 127. lþ. 60.6 fundur 387. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 5/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 127. lþ.

[17:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. sem ég styð og vil geta þess að þegar bráðabirgðalögin voru upphaflega sett 23. september sl., þá var það gert að höfðu samráði við stjórnarandstöðuflokkana. Þau bráðabirgðalög fengu síðan staðfestingu Alþingis skömmu eftir að þingið kom saman í haust.

Sami háttur var hafður á núna þegar þessi bráðabirgðalög sem Alþingi er beðið um að staðfesta nú voru sett um áramótin að haft var samráð við stjórnarandstöðuflokkana. Nú er verið að framlengja ábyrgð ríkissjóðs fyrir flugrekendur eða í þágu flugrekenda gagnvart tryggingafélögum til 15. febrúar. nk.

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hversu raunhæfa telur hann þá dagsetningu vera? Erum við ekki að tala um of skamman frest? Í sjálfu sér er það e.t.v. til of mikils mælst að hæstv. ráðherra geti veitt einhver afgerandi svör því að þetta byggir allt á líkindareikningi. En þetta eru einu efasemdirnar sem ég hef uppi eða spurningar, þ.e. hvort við séum í raun að gera þetta til nægilega langs tíma.

Mér fannst gott að þessar tryggingar skyldu látnar ná til allra flugfélaga sem sinna flugrekstri. Stjórnvöld áttu ekki og eiga ekki annarra kosta völ en að standa að málum eins og hér er gert og ítreka ég stuðning okkar við þessi lög.