Svör um sölu ríkisjarða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:08:01 (3598)

2002-01-28 15:08:01# 127. lþ. 61.92 fundur 277#B svör um sölu ríkisjarða# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Fyrirspurninni sem hv. þm. spyr um svaraði ég fyrir áramót og grandskoðaði síðan. Hv. þm. minntist á bréf til hæstv. forsrh. sem fer með upplýsingamálin. Ég vildi heyra viðhorf hans því að þetta er ekkert einfalt. Það svar liggur fyrir og snýr kannski meira að hagsmunum þingsins. Ég þarf líka að verja einstaklingsréttinn o.s.frv. Ég fagna svari hæstv. forsrh. en verð eigi að síður að gæta þess að ég er sá ráðherra sem fer með þetta mál. Þetta var álit hans en ekki úrskurður af hans hálfu. Í meginatriðum erum við því sammála. Nú liggur fyrir mjög skýr stefna í þess máli, hv. þm. Upplýsingarnar verða á vef landbrn.

Blaðamannafundurinn var prýðilegur fundur með blaðamönnum landsins. Þeir hafa vilja til að segja satt og skýra rétt frá og gerðu það sannarlega þennan dag, spurðu mig auðvitað margra spurninga og yfirheyrðu, að vísu ekki sem sakamann heldur sem ráðherra. Þeir vildu kryfja til mergjar hvort ráðherra færi með satt mál eða ósatt. Þeir hafa skýrt mjög vel frá þessum fundi sem ég hélt með þeim og ég er þakklátur fyrir það.

Ég bað um að þessum gögnum yrði öllum skilað í hólf þingmanna eftir þann fund. Ég vona að það hafi verið gert. Ég skal rannsaka hvort þar er söluverðið á jörðunum. Ellega segi ég við hv. þm. sem er mjög tæknilega kunnandi að hún getur auðvitað gengið fram í eina tölvu og sótt þessar upplýsingar. Þær eru til staðar í landbrn. Til sýnis almenningi og allri þjóðinni. Þar hef ég svarað kallinu. En ég vil auðvitað svara, hæstv. forseti, samkvæmt bestu samvisku og þeim þingsköpum sem við búum við og skal koma þessum upplýsingum til hv. þm.