Opnun Þjóðminjasafnsins

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:46:54 (3623)

2002-01-28 15:46:54# 127. lþ. 61.1 fundur 275#B opnun Þjóðminjasafnsins# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta mál hefur oft verið til umræðu í þingsölum og ég hef aldrei gefið yfirlýsingar um að húsið verði opnað á einhverjum ákveðnum degi. Það er rétt að ég hef aldrei gefið slíkar yfirlýsingar. Þvert á móti hef ég svarað fyrirspurnum. Þetta hefur verið rætt varðandi fjárveitingar úr Endurbótasjóði menningarstofnana. Öll áform um þetta hafa verið kynnt hér. En að það sé svo að ég hafi gefið yfirlýsingar um að unnt yrði að opna þetta hús á einhverjum ákveðnum degi er ekki rétt.

Vangaveltur voru um það, eins og kom fram hjá þáv. formanni þjóðminjaráðs, að hægt væri að setja í þetta dagsetningar. Ég hef aldrei staðfest það. Þvert á móti hef ég lagt höfuðáherslu á að þetta mál yrði undirbúið sem best og lagt upp með ítarlega vinnu í þessu. Það hefur verið unnið að því að skapa Þjóðminjasafninu geymsluaðstöðu í Kópavogi og að málinu hefur verið unnið skref fyrir skref og lagt á ráðin um það hvernig þessi sýning eigi að vera og ekki einu sinni núna þegar menn hafa verið að fjalla um þetta hina síðustu mánuði hef ég heldur nefnt neinar dagsetningar. Málið er því í þeirri stöðu að verið er að vinna að þessu og stefnt er að því að ljúka þessu verki samkvæmt áætlunum sem liggja fyrir. En dagsetningar hef ég ekki nefnt í þessu samhengi.