Bindandi álit í skattamálum

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:14:57 (3633)

2002-01-28 16:14:57# 127. lþ. 61.10 fundur 316. mál: #A bindandi álit í skattamálum# (hækkun gjalds) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stuttu frv. til laga um breyting á lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum.

Samkvæmt gildandi lögum skal ríkisskattstjóri taka gjald fyrir útgáfu bindandi álita. Annars vegar er um að ræða grunngjald sem er 10.000 kr. og hins vegar viðbótargjald, þó að hámarki 40.000 kr.

Í frv. þessu er lagt til að grunngjaldið verði hækkað í 50.000 kr. fyrir hvert álit og ekkert þak verði á viðbótargjaldinu. Rökin fyrir umræddri hækkun eru þau að í ljós hefur komið við framkvæmd laganna að hvert álit er tímafrekara en gert var ráð fyrir í upphafi þar sem þau mál sem óskað er bindandi álits um eru almennt mun flóknari og umfangsmeiri en reiknað hafði verið með. Einnig má geta þess að þessi breyting er til samræmis við það sem ákveðið var hér í skattalagabreytingu fyrir jólin að því er varðar gjaldtöku af bindandi álitum sem fjmrn. sendir frá sér. Hér er því um að ræða að hvort tveggja verði 50.000 kr. grunngjald.

Ekki er ástæða til að fjölyrða um þetta frv. frekar, herra forseti, en ég leyfi mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.