Bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:35:03 (3637)

2002-01-28 16:35:03# 127. lþ. 61.11 fundur 347. mál: #A bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns að þetta frv. var boðað sem hluti af þeim aðgerðum í skattamálum sem ríkisstjórnin kynnti í upphafi þings, að mig minnir 3. október, og var lagt fram fyrir jólin en náði ekki afgreiðslu í önnunum síðustu dagana fyrir jól. Eigi að síður er gert ráð fyrir að unnt verði að gera upp á grundvelli þessara laga nú þegar, þ.e. að menn geti sótt um að færa bókhald og semja ársreikning vegna yfirstandandi reikningsárs á grundvelli þessara laga. Það þýðir að brýnt er að þau fái lögfestingu sem fyrst þannig að menn viti hvar þeir standa. Í raun er verið að leggja til að lögin gildi aftur fyrir sig, til 1. janúar sl., sem almennt talað er kannski ekki góð lögfræði en er allt í lagi með ef um er að ræða ívilnandi aðgerðir, en ekki íþyngjandi. Hér er um að ræða breytingar sem verða að teljast ívilnandi.

Ég lét þess getið að frá því að þetta frv. kom fram hefur átt sér stað töluverð umræða milli ráðuneytismanna og sérfræðinga í þessari grein, endurskoðenda og annarra, um nokkur atriði í frv. Það er alveg ljóst sérstaklega eru skiptar skoðanir um eitt atriði og það má segja að það sé þá 3. mgr. 2. gr. frv., sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi reyndar, þ.e. spurningin um hvort færa skuli bókhaldsbækur jafnframt í íslenskum krónum. Um þetta hafa menn verið að skiptast á skoðunum. Ég geri ráð fyrir því að þingnefndin fái aðgang að öllum þeim upplýsingum. Þar hefur fyrst og fremst verið fjallað um tæknileg atriði, þ.e. hvort tölvubúnaðurinn sem mest er notaður til að halda utan um bókhald í fyrirtækjum í dag ráði við að gera þetta í tveimur gjaldmiðlum. Ef hann ræður við það er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að gera þetta að skyldu. Sé það hins vegar flókið mál og kostnaðarsamt er rétt að ræða nánar hvort skylda beri fyrirtæki til þess.

Ég vil ítreka það sem fram kom í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að hugmyndin með þessu er sú að auðvelda félögum og fyrirtækjum hér á landi að starfa í breyttu starfsumhverfi þar sem alþjóðavæðing hefur aukist mjög, samkeppni færist í vöxt og æ algengara verður að íslensk fyrirtæki hasli sér völl erlendis með einhverjum hætti, eða erlend fyrirtæki eignist hér hlut eða hefji hér starfsemi. Þetta er liður í því að nútímavæða starfsumhverfi fyrirtækjanna, skattkerfið, og fleiri atriði sem skipta máli í rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Hins vegar er ekki verið að leggja til með þessu að hverfa frá íslensku krónunni með einum eða öðrum hætti. Það var það sem ég átti við þegar ég svaraði fyrirspurn hv. þm. Gísla S. Einarssonar fyrr í vetur. Ég taldi ekki þörf á að gera úttekt á áhrifum þessa á stöðu krónunnar sem gjaldmiðils, vegna þess að ég tel að þau áhrif séu engin. Hins vegar hefur að sjálfsögðu verið gerð úttekt á málinu í vinnu nefndarinnar sem ég gat um, starfshóps á vegum ráðuneytisins, á því með hvaða hætti þessi breyting sem slík kæmi fram gagnvart þeim félögum sem hér eiga hlut að máli. Ég sagði í framsöguræðunni að ekki væri víst að þetta væru mjög mörg félög. Ég býst við að það sé rétt, a.m.k. fyrst í stað. En fyrir þau félög sem þarna geta átt hlut að máli getur þetta skipt heilmiklu. Þetta er aukin þjónusta við þau. Þess vegna er þetta hagræðingarmál og hagkvæmnisatriði fyrir slík fyrirtæki þó ég telji ekki að þetta hafi efnahagsleg áhrif og alls ekki nein stórfelld áhrif.

Ég lít á þetta sem einn lið í viðleitni okkar, sem mér heyrist að eigi almennan hljómgrunn í þinginu, að bæta starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Þar sem fyrirtæki eru með starfsemi sem uppfylla þau skilyrði sem hér eru nefnd geta þau fengið þessa heimild. Það er ekki gert ráð fyrir því að hvaða fyrirtæki sem er geti fengið heimild af þessu tagi. Það er ekki gert ráð fyrir að menn geti vaðið úr einum gjaldmiðli yfir í annan eða hringlað með þetta fram og aftur. En menn geta auðvitað valið fleiri gjaldmiðla en t.d. bara evruna. Menn geta valið dollara, pund eða annan skráðan gjaldmiðil hér á Íslandi eins og fram kom í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur.

Ég vil líka undirstrika að með þessu er ekki verið að flytja gengisáhættu af skattgreiðslum fyrirtækja yfir til ríkisins. Skattuppgjörið sem slíkt verður áfram í íslenskum krónum. Enda hefur enginn beðið um annað. Ég kannast ekki við að fyrirtæki hafi farið fram á að fá að skila skattuppgjöri sínu í öðru en íslenskum krónum. Ég tel að þetta sé mikilvæg breyting en ég tel að við eigum ekki að mikla hana fyrir okkur, gera meira úr henni en hún í raun felur í sér. Þetta er framfaramál. Ég fagna því að það hafi stuðning en eins og ég segi má vel vera að það þurfi að gera einhverjar lagfæringar á frv. í meðförum nefndarinnar.

Að því er varðar síðan spurningar hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um útgáfu hlutabréfa í erlendri mynt er það mál sem mér er kunnugt um að er til skoðunar í viðskrn. sem fer með málefni hlutabréfamarkaðarins, en mér er ekki kunnugt um hvar það mál er nákvæmlega á vegi statt. Að því er varðar hins vegar launasamninga í erlendri mynt erum við að tala um allt aðra og miklu afdrifaríkari breytingu en hérna er lögð til. Ég sé það ekki fyrir mér í einni sjónhendingu að menn fari almennt að semja um kaup og kjör í erlendri mynt. Ég held að með slíkri breytingu væri tekið mjög stórt skref í að leggja niður krónuna sem lögeyri og gjaldmiðil á Íslandi. Það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar.