Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 17:40:40 (3643)

2002-01-28 17:40:40# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[17:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Deilumálin í sjávarútveginum halda áfram en alþingismenn tala í annað sinn í vetur um trillur. Hér er ekki verið að takast á um stærstu deilumálin í sjávarútvegi heldur um hvernig eigi að stjórna veiðum smábáta. Það dugar ekki minna en að koma með tvö frv. á sama þingvetrinum til þess að koma þeim málum í það horf sem dugar í eitt ár því að það á að endurskoða þetta eftir árið.

Öll nema eitt, að ég hygg, af þeim atriðum sem hér er verið að leggja til að verði lögfest voru til umræðu þegar fyrra frv. um smábátana var til afgreiðslu og umfjöllunar á hv. Alþingi fyrir áramótin. Það sem bæst hefur við er að nú vilja menn koma í veg fyrir slys sem stafa af því ákvæði í lögunum að ef menn færðu daga á milli báta þá mundi dögunum fækka ef fært yrði á stærri bát en fjölga ef fært yrði á minni bát.

Ég er ekki hissa á að menn vilji breyta þessu ákvæði. Það er heldur ekki nýtt að ákvæði í lögunum um stjórn fiskveiða sem menn hafa sett hér á Alþingi hafi haft áhrif á hvernig bátar eða skip eru smíðuð á Íslandi. Í sannleika sagt held ég að ekki séu til ömurlegri skipasmiðir en þeir sem hafa teiknað í sölum hv. Alþingis. Ég minni á þegar menn tóku upp á að smíða 9,9 tonna bátana, sem urðu allt að því 60 tonn sumir, þegar menn voru farnir að fást við að fara fram hjá reglunum, eða fara eftir reglunum öllu heldur. Sama er að segja um þetta ákvæði, um að dögum mundi fjölga ef fært yrði á bát sem mældur væri minni en sá sem veiðiréttindin voru á.

Það er ljóst að í stað báta með hefðbundnu lagi, sem mælast u.þ.b. 6 tonn samkvæmt núgildandi kerfi, er hægt að smíða a.m.k. sambærilegan bát að stærð sem væri 3 tonn. Sá væri miklu afkastameiri, hraðskreiðari og með öll tæki eins góð eða betri en hinn. Hann hefði hins vegar helmingi fleiri daga til að veiða samkvæmt þeim reglum sem eru í lögunum núna. Ég held að það hefði ekki farið fram hjá mönnum hefði það verið borið undir þá sem hafa staðið í því í gegnum tíðina að reyna að fylgja þeim reglum sem hafa verið settar hér. En það virðist ekki hafa verið gert þegar menn settu þessi lög, kannski hefur ekki verið tími til þess.

Ég er sammála því að þessu þurfi að breyta. Ég mun leggja það til á fundi sjútvn. í fyrramálið að menn athugi hvort við getum ekki farið og fengið að sjá afrakstur þessara reglna sem hér hafa verið í gildi með því að fá að skoða báta sem eru í smíðum núna eftir þessari reglu. Það er satt að segja ekki góð auglýsing, hvorki fyrir Alþingi né þá sem þurfa að fara eftir þessum reglum, að sjá skip sem eru smíðuð með tilliti til þeirra reglna sem eru í gildi.

[17:45]

Ég tel að það sé til mikilla bóta að breyta sóknarkerfinu þannig að menn geti mælt í klukkustundum þann tíma sem þeir eru á sjó og séu ekki undir þeim reglum sem hafa verið, þ.e. að ef þeir ætla að nýta daga sína verði þeir að gera það með því að vera jafnvel heilu sólarhringana á sjó eða a.m.k. sem allra lengst. Þetta hefur orðið til þess að menn hafa bæði verið í miklum vanda með að velja daga til að fara á sjó og líka gengið mjög nærri heilsu sinni og enn fremur lent í erfiðleikum og hættu vegna þess að þeir hafa verið að reyna að róa mjög langa róðra og hafa lent í brælum og vandræðum á landleiðum þess vegna. Ég held að það sé í rétta átt.

En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst vanta að hér á hv. Alþingi sé sagt skýrt og skorinort hvort menn ætli sér að gera þetta að framtíðarkerfi eða ekki. Það er mjög nauðsynlegt að menn horfist í augu við það og gangi þá þannig frá því lagafrv. sem hér er að það geti gengið upp. Það er alveg á hreinu að það sem hér er sett á blað gengur ekki upp. Ef menn mega róa 23 daga, breyta þeim í klukkustundir og eiga síðan að fiska þá litlu prósentu af veiðinni sem höfð er til viðmiðunar gengur það ekki upp. Alþingi er búið að reyna þessa aðferð býsna lengi. Hvað eftir annað hefur Alþingi sett lög þar sem mönnum hefur verið gefið leyfi til að róa ákveðið marga daga, og síðan hefur verið sett einhver viðmiðun um prósentu af fiskstofnum sem menn mættu veiða sem er gjörsamlega út í bláinn. Og þessi viðmiðun er gjörsamlega út í bláinn.

Ég hvet menn til þess að horfast í augu við að það mun halda áfram að veiðast miklu meira en þessi prósenta gefur tilefni til. Ég er ekki að kvarta undan því ef það veiðist meira. En ég er að kvarta undan því að menn setji lög á Alþingi sem þeir vita að geta ekki gengið upp.

Úr því að hér er verið að setja upp það sem menn kalla ,,reynslutímabil`` með þessum hætti, þ.e. eitt ár --- hætta við að fækka dögunum miðað við þá reglu sem var í gildi um 10% rýrnun á ári, fresta því um eitt ár og ætla að endurskoða þetta að því loknu --- lít ég svo á að verið sé að gefa það til kynna að menn séu tilbúnir að skoða hvort þessi floti megi lifa áfram. Botn verður að fást í málið því það mun ekki ganga upp að menn fækki svo klukkutímunum í samræmi við þá lágu prósentu sem þessi floti á að fá að veiða, eins og stendur í lögunum. Ég held að menn þyrftu ekki annað en að velta fyrir sér tölunum um það hvað þessi floti er búinn að vera að veiða á undanförnum árum og bera það saman við það prósentubrot sem þeir mega bera að landi til að sjá að þetta er auðvitað fráleit lagasetning.

Það er alveg full ástæða til að viðhalda þessum flota vegna þess að fjölmörg byggðarlög sem eru nú að lenda í meiri vanda en áður vegna laganna sem voru sett í haust munu kannski að einhverju leyti geta bjargað sér á veiðum þeirra báta sem hér er verið að tala um.

Mig langar svo til viðbótar við þetta að beina spurningu til hæstv. ráðherra því að í frv. er gert ráð fyrir því að ráðherrann fái heimild til að setja reglur um flutning sóknardaga á milli báta í eigu sömu aðila. Mig langar að spyrja þessa: Er um það að ræða að hæstv. ráðherra ætli að setja reglur um það að eigi menn tvo eða fleiri báta geti þeir flutt veiðidagana á milli án skerðingar? Eða er eitthvað annað sem hangir á spýtunni? Ég spyr af því tilefni að ég tel að verið sé að mismuna mönnum ef þetta verður gert svona. Og ég sé enga ástæðu til að mismuna mönnum með þeim hætti. Ég tel að menn eigi að fá að flytja daga af einum bát yfir á annan ef þeir eru að skipta um bát en ekki að menn geti flutt daga á milli báta til að nýta betur dagana sem þeir hafa. Og aðrir sem eiga ekki nema einn bát hafi þá ekki sömu möguleika til að nýta sína daga. Ef mönnum verður leyft að flytja á milli báta í eigu sömu útgerðar held ég að þeir muni hlaupa til og sameina ýmsar útgerðir í snarheitum til að geta gert þetta með það fyrir augum að nýta klukkutímakerfið á allt annan hátt heldur en við höfum kannski verið að láta okkur detta í hug að yrði gert. Auðvitað fá menn ákveðin tækifæri með því að geta nýtt dagana sem klukkutíma. Menn geta þá haldið bátum býsna stíft úti og jafnvel nýtt dagana miklu betur með þessum hætti og það væri þá mismunun við þá sem eiga bara einn bát og fá þar af leiðandi ekki að flytja þá daga óskerta yfir á annan bát ef þeir geta ekki nýtt dagana á þeim fyrri. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hugsi sér að gera hvað þetta varðar svo það liggi fyrir í umfjöllun nefndarinnar um málið.

Ég vil tengja þetta umræðunni um hið nýja samkomulag milli aðila í sjávarútvegi sem var kynnt hér fyrir nokkrum dögum. Ég veit ekki betur en að í því samkomulagi hafi sjómenn a.m.k. staðið í þeirri meiningu að þeir væru að gera samkomulag um að þær aflaheimildir sem væru festar við bátana með samkomulaginu væru aflaheimildir sem ekki væri hægt að flytja á milli þeirra þótt þeir væru í eigu sömu útgerðar, þ.e. að framsalið mætti ekki verða nema 25% af öllum aflaheimildum skipsins og það ætti við hvort sem bátarnir væru í eigu sömu útgerðar eða óskyldra aðila.

Þannig skilja sjómenn þetta. Ég hef leitað mér upplýsinga um það. Og mér finnst að þá þurfi að velta fyrir sér í samhengi hvað menn eru að gera.

Af því að ég er farinn að nefna þetta samkomulag vil ég bara segja að það er náttúrlega full ástæða til að endurtaka hér spurningar og óska eftir skýrum svörum um það hvað er fram undan í umfjöllun um sjávarútvegsmálin í vetur. Hvenær eigum við von á því að fá frv. hér inn til umfjöllunar? Það eru búnar að vera býsna digrar yfirlýsingar um það alveg frá því fyrir síðustu kosningar að hér ætti að taka á málum hvað varðar stjórn fiskveiða til að þjóðin fengi breytingar á kerfinu sem menn sættu sig betur við heldur en hefur verið fram að þessu. Endurteknar yfirlýsingar um að slík mál yrðu lögð fyrir. Yfirlýsingar um að það kæmi fram á þessu þingi eða það kæmi fram fyrir áramót. Við höfum ekki séð þessi frv. enn þá. Þess vegna er full ástæða til að spyrja hvenær þetta frv. sem á að verða til að sætta þjóðina við hið umdeilda fiskveiðistjórnarkerfi muni koma.

Ég verð hreinlega að segja að þótt ég skilji sjómenn ágætlega, að þeir skuli reyna að vinna fyrir umbjóðendur sína með því samkomulagi sem ég nefndi áðan, mundi það samkomulag, ef það yrði lögfest á Alþingi, verða til þess að loka þessari atvinnugrein enn frekar fyrir þeim sem vildu byrja útgerð og hrekja þá út úr útgerð sem hafa hafið hana á Íslandi undir þeim reglum sem eru núna. Því miður. Ég er ekki að mæla með því fyrirkomulagi sem þeir leggja hér til. Ég hef fylgt tillögum um að opna þessa atvinnugrein og gefa mönnum jafnræði til að keppa um að verða atvinnurekendur í sjávarútvegi en mæli ekki með því að þessari atvinnugrein verði lokað enn frekar eins og þarna er gert.

Á meðan einkaeignarrétturinn ríkir í sjávarútvegi eins og nú er sé ég ekki að það sé til bóta að reyna að halda öllum öðrum frá þessari atvinnugrein en þeim sem þar eru fyrir. Og afleiðingarnar af því höfum við verið að sjá á undanförnum árum með endalausum samruna fyrirtækja og stækkun þeirra sem eru stærstir. Þetta mun auðvitað bara bæta í það. Það munu engir komast að þessari atvinnugrein öðruvísi en þeir séu, ja hreinlega komnir þar inn. Þeir geta bætt við sig veiðiheimildum kannski sem eru komnir inn, þeir sem ekki munu þá hrekjast út úr henni núna vegna þeirra ákvæða sem þarna er verið að óska eftir að verði lögfest.

Þetta þurfa menn auðvitað allt saman að vega og meta en ég held að affarasælast væri að menn settust yfir þetta mál með það að leiðarljósi að ná samkomulagi um þessa sameiginlegu auðlind okkar sem þjóðin getur sætt sig við. Það er ekki samkomulag sem samið er um á milli hagsmunaaðila. Hér á hv. Alþingi hafa menn verið allt of uppteknir af því að sækja ráðin til fámenns hóps sem fyrst og fremst horfir --- og bara eðlilega --- á sína eigin hagsmuni í þessu máli. Hér eiga menn auðvitað fyrst og fremst að horfa á sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar og hlusta á það sem hagsmunaaðilarnir hafa að segja en ekki láta þá ráða gerðum sínum eins og svo oft hefur verið hér á hv. Alþingi.