Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 17:57:48 (3644)

2002-01-28 17:57:48# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[17:57]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Við ræðum hér annað frv. af þeim þremur sem boðuð hafa verið á þessu þingi varðandi breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Við settum lög í desember sem sneru að krókaaflamarksbátunum þar sem þeim var að nokkru bætt það sem þeir höfðu misst þegar þeir hættu að geta stundað veiðar á ýsu og steinbít utan kvóta. Núna erum við að ræða hér frv. um þá báta sem hafa leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum sem oftast eru kallaðir dagabátar. Og boðað hefur verið frv. um heildarendurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða með vorinu þar sem tekist verður náttúrlega á um hin stærri mál svo sem eins og veiðileyfagjald eða fyrningarleið. Nýgert samkomulag milli útvegsmanna og allra heildarsamtaka sjómanna hlýtur auðvitað að koma til skoðunar við þá frumvarpsgerð og fleira og fleira.

En vonandi verður þar látið staðar numið í bili með breytingar á þessum lögum. Ekki svo að skilja að ég sé svo stórhrifinn af þessu fiskveiðistjórnarkerfi okkar, síður en svo, en ég held að ekki sé búandi við það að endalaust og stöðugt sé verið að krukka í þetta á hverju einasta þingi. Þeir sem starfa í þessari grein verða náttúrlega að vita nokkuð við hvað þeir búa til aðeins lengri tíma en nokkurra mánaða í senn. Auðvitað er þetta stjórnkerfi okkar að mörgu leyti meingallað, ekki síst hvað snýr að smábátunum þar sem menn eru að veiða með ótal kerfum á svipuðum bátum. Maður getur labbað niður að höfn og séð fjórar fimm tonna trillur liggja hverja utan á annarri og þær eru að veiða í jafnmörgum fiskveiðistjórnarkerfum. Þetta er auðvitað glórulaust en þetta hefur okkur á Alþingi tekist að búa til og við það búa menn.

Það frv. sem hér er til umræðu er til komið með samkomulagi sjútvrn. og Landssambands smábátaeigenda sem er alveg nýtt, að ég held. Ég man satt að segja ekki eftir því fyrr að þar hafi orðið samkomulag á milli um nokkurt mál. Mér finnst það því vera til fyrirmyndar, og mætti vera oftar. Það er gott að þessir aðilar skuli hafa náð að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

[18:00]

Mér líst ágætlega á það sem segir í frv. Þarna er einn hópur útgerðarmanna sem fær að veiða utan þessarar ofboðslegu stýringar þar sem menn mega veiða nákvæmlega upp á kíló þetta og þetta eins og er í öllu kvótakerfinu. Þarna eru kannski síðustu leifarnar af frjálsum veiðum. Menn mega stunda sjóinn ákveðið marga daga og veiða það sem þeim tekst að komast yfir á þeim dögum, en eru að vísu bundnir því að veiða á handfæri sem er ágætt með þeim undantekningum þó að þeir mega bregða sér á hrognkelsa- og botndýraveiðar.

Gert er ráð fyrir að menn fái að veiða 23 daga í stað 21 eins og áður hafði verið gert ráð fyrir sem er auðvitað hið besta mál. Og að þessi hópur báta fái að veiða 0,67% af heildarafla í þorski, auk þeirrar aukningar sem leiðir af því að bátar úr næsta kerfi á undan færa sig yfir í þennan hóp eins og samþykkt var á þinginu í desember, þ.e. þeir bátar sem áður voru í 40 daga kerfinu, þannig að hlutdeildin hækkar eitthvað við það. Þessi 0,67% munu vera fundin þannig að stuðst er við það hvað þessir bátar hafa verið að veiða á undanförnum árum. Kannski verður einhver breyting á því með þeirri breytingu sem gerð er núna, að hætta að telja þessa 23 daga í heilum dögum. Nú verður sóknin mæld í klukkustundum sem breytir örugglega talsvert útgerðarmunstri bátanna. Ég tel það til mjög mikilla bóta. Þetta hefur verið mikið kappsmál fjölmargra manna sem gera út í þessum útgerðarflokki. Þeir hafa frekar viljað fá klukkutímana mælda en dagana, bæði vegna þess að þegar sólarhringarnir eru mældir freistast menn til að halda sig að þó að kannski sé að koma vafasamt veður og svo hefur verið gríðarlegt vinnuálag á þessum mönnum. Ég hitti ágætan trillukarl í síðustu viku sem gerði út frá Tálknafirði í fyrrasumar og hann sagðist í tvígang hafa lent í því að sofna á landleiðinni eftir mikið puð. Sá maður var afskaplega ánægður með þessa breytingu og svo er um fleiri.

Það sem mér finnst líka mjög gott í frv. er að sóknardögum skuli ekki fjölga þótt þeir séu fluttir á minni bát. Í öllu þessu stjórnkerfi okkar eru menn alltaf að reyna að finna leiðir fram hjá því, finna leiðir til að gera eitthvað annað en Alþingi hafði ætlað. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi það að menn væru að teikna báta á Alþingi þegar verið er að bralla svona. Það er út af fyrir sig rétt að þetta hefur ekki kannski verið skýrar orðað hjá okkur en svo að menn hafa endalaust fundið leiðir fram hjá því sem Alþingi ætlar sér og með því kannski eyðilagt kerfið aftur og aftur.

Og smá dæmisaga af því: Þegar ég kom inn í bátasmiðju í síðustu viku stóð þar fimm eða sex tonna bátur sem sú stöð byggði fyrir ágætan útgerðarmann norður í landi fyrir einu ári. Búið var að saga drjúgan hluta af framendanum og var verið að gera hann þverhníptan að framan og stytta hann. Og til hvers var það gert? Jú, það var gert til að fjölga dögunum. Með því að minnka bátinn fengi hann fleiri veiðidaga en 21 eins og gert hafði verið ráð fyrir í lögunum sem nú eru að detta úr gildi. Við hliðina á bátnum stóð síðan ferkantaður kassi og ég spurði bátasmiðinn hvort hann væri farinn að smíða heita potta --- ég var nú svo vitlaus að ég hélt að þetta væri heitur pottur. Þá hló hann við og sagði að þarna væri nýjasta fiskiskipið í flotanum að fæðast. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð að ganga fjórum sinnum í kringum þetta óbermi áður en ég trúði því að þetta ætti að verða bátur; þrír og hálfur metri á lengd, tveir og hálfur metri á breidd og á þessu á svo að vera utanborðsmótor. Þessi bátur á að mælast tæplega eitt tonn. Í honum eiga að vera fiskiker fyrir þrjú tonn og þannig ætlaði útgerðarmaðurinn að fjölga dögunum sínum úr 21 í 60.

Tekið er fyrir svona rugl sem betur fer með frv. Það er náttúrlega fyllilega tímabært og auðvitað þarf að stoppa þetta. Menn reyna alltaf að snúa á kerfið meðan nokkurt tækifæri gefst til. Þess vegna tel ég að þetta sé ágætisákvæði og ég tel að frv. þurfi að fá hraða afgreiðslu á þinginu þannig að endaleysa eins og ég var að lýsa verði stoppuð.

Ég endurtek að ég er almennt mjög ánægður með frv. og tel það til mikilla bóta.