Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 18:05:26 (3645)

2002-01-28 18:05:26# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[18:05]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem hér er til umræðu fjallar um svokallaða dagabáta á handfærum. Þetta er eitt frv. enn af hálfu hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarinnar til að plástra götótt og lélegt stjórnkerfi fiskveiða.

Það er þó lofsvert að hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., skuli gera sér grein fyrir því að það kerfi sem við búum við er meingallað. Það er þó viðleitni að á eins til tveggja mánaða fresti eða svo séu lögð hér fram lítil frv. til þess að bæta í þau göt sem hafa komið á fleytu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum. Eins og við sjáum eru götin með þeim hætti að það er gatasigti líka í kring þannig að þetta er heldur hæpinn plástur og dugar sennilega ekki í marga róðra.

Það er illt til þess að vita, herra forseti, að það stórmál sem er stjórn fiskveiða, og sókn og meðferð nýtingar fiskimiða okkar, skuli vera umgengið með þessum hætti. Þetta er undirstaða, ekki aðeins atvinnulífs og velferðar okkar í dag heldur líka undirstaða velferðar og búsetu og fjárhagslegs og efnahagslegs sjálfstæðis okkar á ókomnum árum. Því skiptir afar miklu máli að menn búi við vistvænt fiskveiðistjórnarkerfi sem tekur mið af og stuðlar að vistvænum veiðum og tryggir svo sem kostur er sjálfbæra nýtingu þessarar auðlindar. Jafnframt þarf að tryggja, eins og eitt af höfuðmarkmiðum með fiskveiðistjórnarlögunum er, búsetu og jöfnuð í landinu. Þetta frv. er enn ein viðurkenning í sjálfu sér, þótt í litlu sé, stjórnvalda á að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við geri þetta alls ekki. Þess vegna er þessi plástur lagður á --- það er alltaf gott að setja plástur á skeinur og láta blása á bágtið, eins og mamma sagði.

En við verðum auðvitað að krefjast þess að fram komi heilsteypt kerfi um fiskveiðistjórn sem taki mið af þeim höfuðmarkmiðum sem standa einmitt í lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. að það tryggi eða stuðli að sem hagkvæmastri nýtingu náttúruauðlindanna, tryggi byggð og búsetu um land allt og tryggi jafnframt til viðbótar sjálfbæra nýtingu og verndun náttúruauðlindanna. Tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fiskveiðistjórnarmálum taka einmitt mið af þessu, virðulegi forseti.

Það sem ég að öðru leyti vildi benda á er það sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði um áhrif af kvótasetningunni á krókabátana sem þegar væru komin fram í þeim byggðum þar sem þær ættu stóran hluta atvinnulífs síns undir veiði þessara báta. Frv. miðar einmitt að því að tryggja enn frekar í sessi sjálft kvótakerfið og möguleika til að leggja plástur á plástur og blása á einstaka kaun sem á því er.

Það hefur sýnt sig alveg ótvírætt, og má benda á skýrslur Byggðastofnunar ef menn vilja sjá staðfest með tölum hver áhrif stjórn fiskveiða hefur á byggð og búsetu í landinu. Enn fremur hver áhrif stjórn og ráðstöfun fiskveiða og fiskveiðiheimilda hefur á laun og tekjur í viðkomandi byggðum. Í nýútkominni skýrslu á vegum Hagfræðistofnunar eru leidd að því rök að kvótatilflutningur frá einstaka byggðum þýðir lækkun á tekjum. Það þýðir yfirleitt að þeir tekjuhærri sem eru þá sjómenn og þeir sem eru í forustu fyrir sjávarútvegsfyrirtækin hafa flutt burt um leið og kvótinn flyst burt eða fyrirtækið er sameinað og lagt undir annað fyrirtæki í fjarlægum landshluta. Þá flytur einmitt þetta fólk líka burt og tekjur sveitarfélagsins lækka. Þar af leiðandi veikist líka byggð og búseta á viðkomandi svæðum. Þetta er ljóst. Þess vegna verður fiskveiðistjórnarkerfið einmitt að taka mið af þessu og játast undir það en ekki hlaupa með einn plástur þegar gat sést og bíða svo eftir að næsta gat komi og verða þá alltaf of seint og ráða kannski ekki við að plástra nema annað eða þriðja hvert gat.

Þetta vildi ég draga hér fram, herra forseti. Fiskveiðar eru eitt stærsta mál þjóðarinnar, og meðferð og stjórn á fiskveiðum og þeirri auðlind okkar. Hún má ekki vera undirorpin slíkum plástrum þó að þessi plástur sem hér er lagður til sé í sjálfu sér góður á þá skeinu og í því umhverfi sem við búum við.

Ég vildi einnig spyrja hæstv. sjútvrh. hvort staða sjávarjarða hafi komið inn í umræðuna. Margir bændur höfðu og hafa sumir enn miklar nytjar af því að stunda sjávarútveg jafnframt öðrum atvinnuvegi frá jörðum sínum. Það að mega nýta auðlind fyrir landi sínu og fyrir jörðum sínum með þeim hætti ræður bæði byggð og búsetu á viðkomandi stöðum. Og verður í mörgum tilvikum kannski ekki betur gert þjóðhagslega. Ekki er um að ræða mikinn eða stóran hlut af heildarafla landsmanna en mundi hafa afar mikla þýðingu, og hefur, fyrir byggð og búsetu á viðkomandi svæðum og jafnframt líka nýtingu auðlindanna.

Ég óttast, herra forseti, að það fiskveiðistjórnarkerfi sem tekur hvergi heildstætt á þeim málum hvað varðar fiskveiðiheimildir og fiskveiðiréttindi, heldur stöðugt í bútum og plástrum, skilji einmitt atriði eins og þetta út undan.

Ég tel að í tengslum við afgreiðslu á lögum sem kveða á um rétt smábáta til fiskveiða væri einmitt rétt að taka inn í slíkan rétt sjávarjarðanna. Rétt bænda á sjávarjörðum til að nýta fiskveiðiheimildirnar fyrir löndum sínum, þeir hefðu forgang til þess og þyrftu ekki að kaupa til þess kvóta, en þetta væri réttur sem þeir gætu ekki framselt öðrum heldur væri háður búsetu og nýtingu á viðkomandi jörð.

Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort staða þeirra manna, þessara réttinda og jarða, hafi ekki komið upp í umræðunni eða hvað hann hyggist gera varðandi það mál. Á það bara algjörlega að hverfa út af borðinu? Það mundi ég harma því að ég tel að í þeim tilvikum sem þetta gæti komið að notum mundi það verða virkilega til þess að styrkja byggð og búsetu á einstaka jörðum, og ætti þess vegna að halda til haga.