Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:42:18 (3659)

2002-01-29 13:42:18# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. féll í þá gryfju sem maður heyrir oft, að þingmenn séu í jólafríi. Ég er dálítið óhress með það vegna þess að ég tel mig ekki hafa verið í jólafríi heldur jólahléi. En þetta er ekki það sem ég ætlaði að ræða um heldur það af hverju menn ætla að ræða um byggðamál og hafa sérstakt aukaþing um það. Af hverju ekki að hafa aukaþing um t.d. stóriðjuna, umhverfismál eða velferðarkerfið? Af hverju má ekki hafa sérstakt aukaþing um stöðu atvinnulífsins, um getu þess til að greiða skatta og há laun?

Er ekki aðalmálið varðandi byggðastefnuna að minnka ríkið því að ríkið blæs út í Reykjavík? Er ekki spurning um að fækka opinberum starfsmönnum? Það eru ýmsir þættir sem ég gjarnan vildi spyrja hv. þm. um og þá sérstaklega af hverju við höldum ekki aukaþing um öll þessi merkilegu mál sem ég tel ekkert ómerkilegri en byggðamálin.

Svo ber þetta dálítinn blæ af því að menn ætla að tala og tala. Ég vil miklu frekar gera og gera.