Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:43:30 (3660)

2002-01-29 13:43:30# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:43]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það alveg rétt hjá hv. þm. að okkur ber að tala um jólahlé en ekki jólafrí. Menn eru að sinna störfum sínum sem þingmenn þótt það sé hlé á hinum formlegu þingstörfum. Þetta er alveg rétt ábending. En ég hélt að ég hefði reyndar talað um jólahlé.

Hv. þm. spyr hvers vegna við ættum ekki að taka önnur mál til umfjöllunar á sérstökum þingum. Velferðarmál nefndi hv. þm. og aðra málaflokka einnig. Jú, allt eru þetta verðug viðfangsefni sem þurfa að fá markvissa umræðu í þinginu en við lítum svo á að það sem hafi einkennt þróunina á landsvísu á undangengnum árum sé mjög alvarleg byggðaröskun. Hún hefur valdið þjóðinni allri miklum vandræðum og við teljum mjög mikilvægt að taka á þessum vanda á heildstæðan hátt þar sem boðað verði til sérstaks þings til að fjalla um allt það sem byggðaröskuninni tengist.

Okkar tillaga gengur ekki einvörðungu út á það að tekið sé á þessum málum innan þings. Eins og ég gat um áðan gerum við jafnframt ráð fyrir því að boðað verði til sérstakrar ráðstefnu utan þings þar sem fulltrúar sveitarstjórna, stofnana sveitarfélaga og hins opinbera sem annast byggðamál, fulltrúar félagasamtaka og einstaklinga sem láta sig málið varða geti borið saman bækur sínar og veitt þinginu stuðning og aðhald í störfum. Við teljum að slík umfjöllun um byggðamálin geti orðið til góðs.