Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:47:18 (3663)

2002-01-29 13:47:18# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Það er að mínu viti afar brýnt að þessi tillaga frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem fjallar um að halda skuli sérstakt aukaþing Alþingis um byggðamál, komist til framkvæmda. Fá mál sem ríkisstjórn og Alþingi hafa ályktað um hafa farið meira á annan veg en ráð var fyrir gert en stefna og áætlun í byggðamálum. Eiginlega má segja, herra forseti, að flest þar hafi gengið á annan veg en Alþingi hefur ályktað um. Ég hygg að þessi málaflokkur einn og sér hafi verulega sérstöðu hvað varðar ályktanir og samþykktir af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis um stefnumörkun í byggðamálun. Árangurinn gengur þvert á þá stefnumörkum, þ.e. byggðin hefur haldið áfram að veikjast, atvinnulífið hefur haldið áfram að veikjast, almannaþjónustan hefur haldið áfram að veikjast þvert á gefin fyrirheit, á gefna stefnumörkun af hálfu stjórnvalda.

Alþingi og ríkisstjórn skulda í raun sjálfum sér að fara í gegnum þessi mál á sérstöku þingi þar sem um ekkert annað er fjallað til að komast að því hvers vegna svona hefur til tekist.

Við fjöllum á Alþingi um einstök mál sem snerta vissulega lífið í landinu, lífið um allt land, og það er ekki vilji höfuðborgarbúa að byggð veikist úti um land, að atvinnulífið sem stendur jú undir stórum hluta af efnahagslífi okkar og útflutningstekjum sé veikt.

Herra forseti. Ég tel því að það sé hið brýnasta mál fyrir Alþingi að horfast í augu við að ekki hefur tekist að framfylgja stefnu stjórnvalda, stefnu Alþingis í byggðamálum og því beri að halda um það sérstakt þing og fara rækilega ofan í saumana á því hvað hafi mistekist af hálfu Alþingis og hvernig það geti betur tekið á. Ég skora því á hv. Alþingi að koma þessu þingi á hið allra fyrsta.