Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:52:09 (3666)

2002-01-29 13:52:09# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er auðvitað ekki kunnugur skólamálum fyrir austan Tröllaskaga því þá mundi hann vita að á þeim tíma sem þeir voru iðnaðarráðherrar, Hjörleifur Guttormsson og Sverrir Hermannsson, var ekki mikið talað um stóriðju við Eyjafjörð. Þeirra augu beindust öll að Reyðarfirði. Annar þeirra lofaði meira að segja að borða gleraugun sín ef svo færi að ekki kæmi stóriðja við Reyðarfjörð. Ég skal ekki segja hverju hinn lofaði. Nokkuð er það að Austfirðingar á góðum stundum enn rifja upp þá björtu daga þegar þessir tveir menn voru að lýsa hinni björtu stóriðjuframtíð Austfirðinga, enda þingmenn þeirra sem Austfirðingar höfðu traust á.

Ég geri ráð fyrir því ef hv. þm. reynir nú að rifja upp söguna að hann fallist á að það sé rétt hjá mér að Háskólinn á Akureyri kom síðar til og umræður um hann komust á flugstig eftir að Sverrir Hermannsson hætti sem iðnrh. en ekki áður.