Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:53:25 (3667)

2002-01-29 13:53:25# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum í sjálfu sér miklu frekar horfa fram á veginn og skoða hvernig takast megi á við verkefni framtíðarinnar en ekki velta okkur í mistökum einstakra þingmanna, t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu sem horfðu á stóriðjudrauma þar. Ég vona að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi átt hlut að máli í að blása af þessa stóriðjudrauma í Eyjafirði til að hægt yrði að takast á við uppbyggingu Háskólans á Akureyri í staðinn.

Herra forseti. Ég vona líka, ef hv. 1. þm. Norðurl. e. verður einnig þingmaður á Austurlandi, að hann sjái einnig --- ég vona að hann hafi átt hlut að þeirri stefnubreytingu sem varð í Eyjafirði --- af eigin raun að Austurlandi hefur verið haldið í vissri spennitreyju vegna stóriðjudrauma í staðinn fyrir að þar hefði fyrir löngu átt að vera búið að ráðast í jarðgöng, t.d. á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, þ.e. ef tekið hefði verið á af myndarskap.

Vonandi sjáum við það líka gerast á Austurlandi með hliðstæðum hætti og í Eyjafjarðarsveit, bæði í Eyjafirði og á Akureyri, að þar byggist upp blómlegt mannlíf og miklar væntingar og vonir í kringum annað en stóriðju. Ég vona svo sannarlega að 1. þm. Norðurl. e. láti ekki sitt eftir liggja og byggi upp blómlegt atvinnulíf byggt á traustum íslenskum grunni á Austurlandi.