Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:55:58 (3669)

2002-01-29 13:55:58# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mjög gott er til þess að vita að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli gera sér grein fyrir því að flest eða öll mál sem koma fyrir þingið eru byggðamál og snerta byggð og búsetu í landinu öllu hvar sem er og velferð þess. Þess vegna er afar mikilvægt að þessi mál hljómi saman við stefnu ríkisstjórnarinnar, hljómi saman við ályktanir Alþingis í byggðamálum.

Hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal gert sér grein fyrir því hvernig ályktanir í byggðamálum og markmið og stefnumörkun sem Alþingi og ríkisstjórn hafa þar sett sér, hafa gengið upp?

Hv. þm. minntist á opinbera starfsmenn. Já, ég býst við að flestallir landsmenn geri sér grein fyrir mikilvægi starfa opinberra starfsmanna og þeir sjái eftir hverju pósthúsi sem lokað er, hverjum starfsmanni á pósthúsi sem sagt er upp. Já, þeir gera sér grein fyrir mikilvægi velferðarþjónustunnar. Þeir gera sér grein fyrir mikilvægi almannaþjónustunnar í landinu sem ríkið og hið opinbera og sveitarfélögin bera ábyrgð á. Og þeir sjá eftir hverri þeirri þjónustu sem skorin er niður úti um land.