Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 13:57:26 (3670)

2002-01-29 13:57:26# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þar sem komið hefur í ljós að velflest mál sem Alþingi fjallar um snerta byggðamál að einhverju leyti, getum við þá ekki bara kallað öll þing Alþingis byggðamálaþing? Þá þurfum við ekki að hafa neitt aukaþing sérstaklega um byggðamál þar sem öll þing eru að fjalla um byggðamál.

Ég tel að sú árátta að búa til aukaþing um ýmis mál sé ekki til annars en að drepa málinu á dreif og eiginlega að búa til fögur orð því að stefna í byggðamálum byggist ekkert á fallegum orðum. Það er ekki það sem hreyfir hlutina. Það eru gerðirnar sem hreyfa hlutina, hvernig framkvæmdin er, og það er allt annað. Ég held að svona aukaþing þjóni engum tilgangi, engum.

Síðan varðandi það hvar opinberir starfsmenn eru. Það sér hver heilvita maður og alveg sérstaklega fólk úti á landi að hinn mikli vöxtur ríkisvaldsins á síðustu 50 árum hefur allur orðið meira og minna í Reykjavík. Sá mikli vöxtur sem orðið hefur hjá ríkisvaldinu hefur sennilega skaðað landsbyggðina langmest.