Aukaþing Alþingis um byggðamál

Þriðjudaginn 29. janúar 2002, kl. 14:16:06 (3678)

2002-01-29 14:16:06# 127. lþ. 62.5 fundur 24. mál: #A aukaþing Alþingis um byggðamál# þál., Flm. ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 62. fundur, 127. lþ.

[14:16]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil að vissu marki taka undir þessi orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og staðfesta að samkomulag var um að haga málflutningi á þann veg að umræðan yrði tiltölulega stutt um hvert þingmál. Þannig hagaði ég máli mínu í upphafi, en ég er 1. flm. þessa þingmáls, og þannig hafa flestir aðrir hagað sínu máli.

Hins vegar er erfitt við því að gera þegar orðum er beint til ræðumanna og þeir krafnir svara annað en verða við slíkum áskorunum. Hitt er síðan annað mál að umræðurnar hafa verið að þróast út á mjög sérhæfðar brautir. Hér er til umræðu tillaga um að efna til byggðaþings. Færð eru sérstök rök fyrir því hvers vegna slíkt væri eðlilegt en síðan hafa menn, og er ekkert við því í rauninni að segja, nýtt sér sitt málfrelsi eins og þeir hafa rétt til, og umræðan hefur verið að þróast út á mjög sérhæfðar brautir.

Ég vil taka undir orð hv. þm. um að samkomulag var um þetta en að sjálfsögðu hafa hv. þingmenn og það gildir að sjálfsögðu um alla, einnig hæstv. forseta Alþingis, rétt til þess að nýta málfrelsi sitt í þingsal.